138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:35]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hóf ávarp sitt á því að það væri eitt sem ylli honum áhyggjum. Það er gott ef það er bara eitt.

Fyrst varðandi Vaðlaheiðargöng. Þau eru að sjálfsögðu þarna inni eins og þau hafa alltaf verið sem sérstakt fjáröflunarverk, einkaframkvæmdarverk. Í gildandi samgönguáætlun í viðaukanum var samþykkt að setja Vaðlaheiðargöng í gang með veggjaldi og skuggagjöldum, svokallaðri „fifty/fifty“ skiptingu.

Það er hins vegar ljóst miðað við allan þann niðurskurð og það sem ég hef fjallað um að það mun aldrei geta gengið eftir, það verður meira. Talað er um Vaðlaheiðargöng sem framkvæmd eins og aðrar stórframkvæmdir sem tekið verður lán fyrir og veggjöld þurfa að standa undir.

Annað varðandi samgöngumiðstöðina, virðulegur forseti, sem hv. þingmaður talar um, ef það er eitthvað undarlegt sem kemur þar fram verð ég að geta þess að allt aftur í tíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur samgöngumiðstöð verið skrifuð inn í samgönguáætlun sem einkaframkvæmdarverk og það hefur alltaf verið hugmyndin, það hefur alltaf legið ljóst fyrir hjá öllum að samgöngumiðstöð verður reist með því að taka lán hjá lífeyrissjóðum og endurgreidd með leigugjöldum og svokölluðum innritunargjöldum eins og reyndar á sér stað í dag á Reykjavíkurflugvelli.