138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:38]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Eins og hv. þingmanni er vafalaust kunnugt um hefur ákveðin stjórnunarstefna sem var rekin hér til margra ára beðið skipbrot, orðið gjaldþrota og þjóðin lent í miklum vandræðum, fjárhagslegum sem annars konar. Ég er hissa á því, virðulegi forseti, að hv. þingmanni, sem ég man ekki hvað er búinn að sitja lengi á Alþingi, skuli koma það á óvart að talað sé um einkaframkvæmd og gjald. Hann talar fyrir gjaldheimtu í Vaðlaheiðargöng þó að hann andmæli gjaldheimtu í hinu orðinu, og svo innritunargjöld eins og tíðkast í dag á Reykjavíkurflugvelli, svo við tökum dæmi, brottfarargjald, flugstöðvargjald eða hvað við viljum kalla það, það hefur alla tíð verið hugsað inn í samgöngumiðstöðina. Það er ekki þessi samgönguráðherra sem finnur það upp. Það var fundið upp í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og kemur þar fyrst fram. Þannig hefur alltaf verið rætt um það og mér kemur það á óvart ef hv. þingmaður hefur ekki vitað til þess.