138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Gott og vel, ég trúi því og treysti að farið verði í Dýrafjarðargöng sem allra fyrst og uppbyggingu vegar um Dynjandisheiði vegna þess að annars er alveg fullkomlega út í hött að fara í einhverja sóknaráætlunarvinnu sem á að byggja á t.d. styrkleikum þessa svæðis, Vestfjarða, ásamt öðrum svæðum á Íslandi.

Mig langar að nota síðari hluta andsvara minna til þess að spyrja um vegtolla. Nú greiða bifreiðaeigendur á Íslandi mjög mikil há til þess að keyra um vegina. Maður sem keyrir hvern vinnudag frá Selfossi til Reykjavíkur og til baka borgar um 20 þús. kr. á mánuði miðað við 10 lítra á hundraðið í eyðslu þannig að fólk borgar umtalsvert. Ég hef hlýtt með athygli á hæstv. ráðherra tala um mögulega vegtolla á Íslandi. Sér hann fyrir sér að t.d. tvöföldun Suðurlandsvegar verði fjármögnuð með því að það fólk sem borgar 20 þús. kr. á mánuði borgi meira (Forseti hringir.) eða sér hann einfaldlega fyrir sér að bensíngjöld og önnur gjöld sem bifreiðaeigendur borga verði tekin út og alfarið verði tekið upp vegtollaskipulag á Íslandi með þeim kostum sem því fylgja mögulega?