138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að hæstv. ráðherra hefur skoðað þann möguleika að setja hreinlega lög um þetta. Ég fagna því sérstaklega. En það sem ég hræðist í þessu er að menn standi frammi fyrir tveimur valkostum. Annars vegar að fara með veginn hugsanlega upp á hálsana, sem heimamenn hafa hingað til talið mjög óæskilegt að gera og vilja frekar fara í láglendisveg eins og hæstv. ráðherra benti hér á eða að menn fái ekki veg næstu árin. Þess vegna tel ég mikilvægt og varpaði því upp hvort við ættum ekki að skoða það í fullri alvöru að setja sérstök lög um þennan veg. En að sjálfsögðu tek ég undir með hæstv. ráðherra, auðvitað virði ég sem þingmaður kjördæmisins vilja íbúanna. Ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra um það. En við verðum að átta okkur á því að við megum ekki setja hlutina í það samhengi að ef menn fari ekki í þetta þá fái þeir ekki neitt. Þess vegna fagna ég því líka sérstaklega að hæstv. ráðherra segist hafa skoðað þetta vel og rætt hvort þetta væri möguleiki.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að ég hefði talað mest um mitt kjördæmi. Ég á eftir að ræða miklu fleira í mínu kjördæmi eins og til að mynda í Borgarfirðinum, Uxahryggina og í Laxárdalnum og mörg fleiri verkefni er hægt að nefna sem eru ekki inni í þessari áætlun en voru inni í gömlu áætluninni. Ég geymi það til betri tíma og úrvinnslu í nefndinni en eins og ég sagði áðan er mjög mikilvægt að það verði gert þar. Þar af leiðandi fær maður líka víðara sjónarhorn á þau svæði þar sem maður þekkir ekki eins vel til, enda liggur það fyrir að samgönguáætlun mun fara til umsagnar hjá mjög mörgum aðilum.

Mig langar í lokin að ítreka fyrri spurningu mína til hæstv. ráðherra hvort það standi til — af því að það má hálfpartinn lesa það út úr textanum eða kannski geri ég það, ekki með vilja heldur af því að það veldur mér ákveðnum áhyggjum — að færa þau störf sem eru núna í Stykkishólmi með eftirliti og (Forseti hringir.) úrvinnslu gagna í myndavélunum, hraðamyndavélunum, hvort standi til að breyta því.