138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf að geyma eina eða tvær spurningar frá hv. þingmanni þangað til í seinni ræðu minni á eftir, þar á meðal spurningu sem ég heyrði ekki í fyrra skiptið.

Virðulegi forseti. Það sem ég vildi geta um er að mér fannst hv. þingmaður tala um 6,5 milljarða 2011. Það eru 7,5 og 2012 eru 7 en ekki 6 þannig að þetta eru 14,5 milljarðar sem settir eru fram í þessari stefnumörkun. En ég þarf auðvitað ekki að minna þingheim á að þetta er stefnumörkun og síðan eru það fjárlögin sem skammta okkur endanlega fé sem við höfum úr að ráða. En þetta er það fé sem ríkisstjórnin heimilaði okkur að setja fram í áætlun þrátt fyrir að fjárlög til næstu ára séu ekki komin fram.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan: Ég þakka hv. þingmanni fyrir það sem hér hefur komið fram. Mér fannst mjög skynsamlegt það sem hér var rætt eins og umræða hans um sunnanverða Vestfirði sem við höfum öll miklar áhyggjur af og áhuga á að komast í sem fyrst vegna þess að það er hárrétt að það er ekki neinum samgönguráðherrum eða alþingismönnum að kenna að við höfum ekki komist í það verk. Verkið hófst fyrir mörgum árum og lauk með dómi Hæstaréttar í nóvember eða desember ef ég man rétt þar sem málið féll eiginlega á praktísku atriði, þ.e. þessu eina orði „umferðaröryggi“.