138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mjög ánægður með samgönguáætlunina sem liggur fyrir. Mér finnst margir vindar blása frísklega þar um. Ég er sammála hæstv. samgönguráðherra um þær leiðir sem hann leggur til til að fjármagna ýmsar stærri samgönguframkvæmdir.

Ég vil líka hrósa hv. þingmanni sem talaði áðan vegna þess að mér fannst ræða hans málefnaleg og mælt af þekkingu. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði um suðurfirði Vestfjarða og ég styð það allt. Það eru skýringar á því af hverju framkvæmdir þar hafa tafist. Hv. þingmaður rakti þær og hæstv. samgönguráðherra tók undir það.

Frú forseti. Fyrst við erum að tala um kjördæmi hv. þingmanns og Vestfirði þá kem ég hingað vegna þess að einhver verður að tala fyrir hin smæstu byggðarlög. Ég er þeirrar skoðunar að eitt af því sem við þurfum að huga að fyrr en síðar eru samgöngubætur á Veiðileysuhálsi. Ég er þeirrar skoðunar að Árneshreppur sé eins konar flagg á byggðastefnu og byggðamálum á Íslandi. Þetta er eitt smæsta byggðarlag landsins og ég hef alltaf sagt að á meðan byggð helst í Árneshreppi þurfum við ekki að hafa áhyggjur af landsbyggðinni.

Helsti annmarkinn á tilvist þeirrar byggðar eru samgöngumálin og fyrst og fremst Veiðileysuhálsinn. Þar liggja fyrir allar áætlanir um framkvæmdir. Við vitum hvað þær kosta, í kringum 200 millj. kr., og ég mundi mæla með því við samgöngunefndina, hæstv. samgönguráðherra og þann góða þingmann sem talaði áðan að menn skoðuðu hvort ekki væri hægt að hnika til innan samgönguáætlunar þannig að hægt væri að ráðast fyrr en hugsanlega er áformað í að gera veginn yfir Veiðileysuháls þannig úr garði að hann sé ekki sú takmörkun sem hann er nú fyrir íbúa í Árneshreppi svo að þeir geti verið í þokkalegu sambandi við afganginn af landinu.