138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók skýrt fram að ég styð samgönguáætlunina sem fyrir liggur. Ég veit vel að hún er búin til við aðstæður þar sem verulega hefur skort fjármagn. Við höfum gengið í gegnum erfiða tíma og þess vegna er ekki hægt að setja meiri peninga í þarfar samgöngubætur víðar.

Þingmenn hafa bara 10 mínútur til að tala og ég skil vel að þeir komist ekki yfir allt. Þess vegna finnst mér við hæfi að fyrrverandi byggðamálaráðherra sem býr í 101 komi og minni þingheim á smæsta byggðarlagið, Árneshrepp, því að hugsanlegt er að enginn annar hafi tíma til að tala fyrir það. Ég hef verið þeirrar skoðunar að á meðan okkur tekst að haga innviðum og grunngerð þannig að mönnum þyki lífvænlegt í Árneshreppi þá andi landsbyggðin öll með þokkalegum hætti. Ég tel að Árneshreppur sé á vissan hátt vísbending um stöðuna á landsbyggðinni. Nú veit hv. þingmaður auðvitað að árið sem byggðamálaráðherrann úr 101 hvarf úr embætti var hið fyrsta á 29 ára skeiði þar sem þeim sem bjuggu á landsbyggðinni fjölgaði. Það er reyndar gleðiefni að það fjölgar líka í Árneshreppi. Og af því að hv. þingmaður nefndi ferðaþjónustu þá er hún líka búin að skjóta rótum þar og reyndar stóreflast.

Ég fer ekki fram á að menn berji bumbur og skeki alla samgönguáætlun. Ég bið menn um að gleyma ekki litlu byggðarlögunum vegna þess að enginn hefur tíma til að tala fyrir þau á sínum 10 mínútum.