138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:23]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í þeirri samgönguáætlun sem hér birtist má segja að stefna stjórnvalda í samgöngumálum komi fram, þ.e. sýn þeirra á þarfir landshlutanna og heildarsýn á uppbyggingu vegakerfisins og samgöngukerfisins í heild. Hér eru settar fram margar góðar áherslur sem ástæða er til að vekja athygli á og fagna, t.d. í sambandi við almenningssamgöngur, uppbyggingu og eflingu hjólreiða og hjólreiðastíga, umferðaröryggi og svo er líka gaman að sjá í þessari samgönguáætlun þau áform sem þar eru uppi varðandi strandsiglingar.

Við vitum að það getur verið vandaverk að útdeila takmörkuðum fjármunum svo að sanngjarnt sé. Enginn er öfundsverður af því og síst hæstv. samgönguráðherra í því árferði sem nú er enda eru þarfir og aðstæður landshlutanna æði misjafnar. Það eru víða komnar á um landið mjög góðar samgöngur og á undanförnum átta árum hefur verið farið í margar markverðar og miklar stórframkvæmdir í samgöngumálum. En það er athyglisvert að hugsa til þess að á þessum átta árum hefur aðeins tekist að leggja 56 km af nýjum vegum á Vestfjörðum. Um Norðvesturkjördæmi liggja 46% vegakerfis alls landsins, þ.e. helmingurinn í kílómetrum talið liggur um kjördæmið. Ég er ekki að nefna þetta í þessu dæmigerða kjördæmapoti sem stundum er talað um. Ég er að nefna þetta vegna þess að Vestfirðir eru, eins og margoft hefur komið fram í umræðunni í dag, afskiptasta landsvæðið í samgöngumálum, svo afskipt að hæstv. samgönguráðherra hefur sjálfur séð ástæðu til þess, þó hann beri ekki á því ábyrgð, að biðjast afsökunar á því hvernig staðið hefur verið að samgöngumálum á Vestfjörðum á undanförnum áratugum. Þar háttar svo til að suðursvæði Vestfjarða er ekki í sómasamlegu vegasambandi við þjóðvegakerfið. Þetta stendur til bóta með þeirri áherslu sem lögð er í þeirri samgönguáætlun sem hér er lögð fram, um að ganga í vegaframkvæmdir í Barðastrandarsýslu, og það er gott, það er forgangsröðun í samræmi við áherslur heimamanna.

En það er auðvitað annað atriði sem þungur forgangur var á í áherslum heimamanna og það eru Arnarfjarðar/Dýrafjarðargöngin. Það vill þannig til að í sóknaráætlunum og byggðaáætlun stjórnvalda er lögð áhersla á sóknarfæri landshlutanna, eflingu atvinnulífs, sameiningu sveitarfélaga og að sameina bæði þjónustu- og atvinnusvæði sem víðast. Þar eru m.a. sett fram áform um slíka sameiningu á Vestfjörðum þannig að norður- og suðurhluti Vestfjarða geti verið eitt atvinnu- og þjónustusvæði og í framtíðinni verði hægt að sameina sveitarfélög. Allt þetta veltur á því að hægt sé að tengja norður- og suðurhluta Vestfjarða. Í byggðaáætlun, sem við ræddum í gær, er m.a. sagt beinum orðum að framtíð byggðar á suðursvæði Vestfjarða velti einfaldlega á því að hægt sé að fara í nauðsynlegar samgöngubætur. Það er tekið svo sterkt til orða. Milli þessara byggðarlaga er yfir sumartímann tveggja klukkustunda akstur yfir tvo erfiða fjallvegi, Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði, sem lokast yfir vetrarmánuðina og þá er vegartálminn ekki lengur tveggja klukkustunda akstur heldur um 450 km leið og 6 klukkustunda akstur vegna þessa vegatálma. Það var því mikið fagnaðarefni á sínum tíma þegar Arnarfjarðar/Dýrafjarðargöng, sem liggja nánar tiltekið undir Hrafnseyrarheiði, eða eiga að liggja undir Hrafnseyrarheiði, komust á dagskrá því að þar er tengingin sem er þessu byggðarlagi lífsnauðsynleg því hvergi hefur fækkun íbúa verið meiri og hvergi hefur búsetu- og atvinnuröskun orðið meiri en á þessu svæði.

Ég bind því vonir við að þær yfirlýsingar sem komu fram í máli hæstv. samgönguráðherra áðan um að Arnarfjarðar/Dýrafjarðargöng muni koma inn á næstu áætlun sem sýnd verður í samgöngumálum, þ.e. þá áætlun sem fyrirhugað er að kynna í haust. Ég tel að það megi ekki dragast lengur en orðið hefur að ráðast í þessar framkvæmdir því að þetta er algerlega lífsnauðsynleg framkvæmd sem snýst ekki endilega um það hvernig fjármunum er skipt á milli landshluta heldur miklu frekar um það hvort við ætlum að taka ákvörðun um það hreint og beint að byggð þrífist á suðurhluta Vestfjarða. Staðreyndin er bara sú, og það eru engin gífuryrði í því, að ef ekki verður farið í þessar framkvæmdir á allra næstu árum og byrjað sem fyrst má segja að það sé ákvörðun um að leggja af byggð á þessum slóðum.

Ég vil minna á og vekja athygli á því að samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga og stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hafa risið upp til varnar Arnarfjarðar/Dýrafjarðargöngum með ályktun sem barst frá sambandinu fyrir fáeinum dögum. Þar er m.a. minnt á að framlög til vega um Barðastrandarsýslu, milli Bjarkalundar og Flókalundar, hafi áður verið ákveðin og Dýrafjarðargöng eigi ekki að hafa áhrif á þá stefnu að koma byggðum Barðastrandarsýslu í heilsársvegasamband við þjóðvegakerfi landsins. Þar er líka vakin athygli á því að núna, miðað við það hvernig samgönguáætlun er í dag, er útlit fyrir að Vesturbyggð og Tálknafjörður verði einu þéttbýlissvæðin á landinu sem enn hafa ekki nútímavegasamband við aðra landshluta að tveim árum liðnum, hvort sem um er að ræða sunnan Breiðafjarðar eða norðan. Það er því ljóst að vilji heimamanna er ríkur til þess að áherslan á þessa vegtengingu komist aftur inn og verði sett fram með sýnilegri hætti en í því skjali sem hér liggur fyrir.

Auðvitað eru hvort tveggja bráðnauðsynlegar framkvæmdir, þ.e. vegarbæturnar í Barðastrandarsýslu og þessi tenging, en ef ég má nota líkingamál er það þannig að ef læknir í skurðaðgerð er með sjúkling sem er með tvo lífshættulega áverka þá getur hann ekki valið að lækna eða gera aðgerð á öðrum þeirra. Stundum er staðan þannig að bregðast þarf við fleiri en einu og þarna eru tvö gríðarlega brýn forgangsverkefni sem skipta öllu um framtíð byggðar sem er að blæða út. Í því ljósi vil ég gjarnan að þetta mál verði skoðað. Ég skora á Alþingi, og ég skora á hv. samgöngunefnd, að taka þetta mál til alvarlegrar athugunar meðfram þeirri heildarsýn sem við verðum að skoða í samgönguáætlunum og samgönguframkvæmdum eins og þær áherslur eru birtar í plagginu í heild sinni.