138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:47]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst til að svara þessu síðasta sem hv. þingmaður sagði og svara þá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni í leiðinni: Jú, það stendur ekkert annað til en halda þeirri starfsemi áfram sem er við sektirnar í Stykkishólmi og álagningu fyrir óskoðuð ökutæki í Bolungarvík, ég þykist vita að hv. þingmaður eigi við það, sem hófst fyrir einu eða tveimur árum.

Virðulegi forseti. Aðeins út frá því sem hv. þingmaður sagði, um verkefnaskort. Við erum að vinna í ár, árið 2010, á þessu hörmungarári í fjárlögum ríkisins, fyrir hvorki meira né minna en 11,5 milljarða kr. Það er mikið fé. Það er líka mikið fé ef tekið er tillit til þeirrar fjárveitingar sem var til vegagerðar 2000–2007 miðað við verga landsframleiðslu. Ég hygg að þetta ár sé að jafnaði við það ef ekki ívið betra vegna þess m.a. að við fengum að flytja þessa peninga til. Og til útboða kemur á þessu ári um leið og við getum; um leið og þessi samgönguáætlun hefur verið samþykkt vegna þess að okkur vantar að fara að bjóða út verk sem hefjast í upphafi næsta árs, það er rétt að á næsta ári er ekki úthlutað nema fyrir 1,5 milljarða.

Aðeins varðandi það sem hv. þingmaður sagði um sunnanverða Vestfirði. Ég kannaði það, á fundi í fyrradag, hvort við gætum komist í einhverja kafla í sumar, hvort sem það er í Kerlingarfirði eða Kjálkafirði, án þess að við þurfum að fara í umhverfismat. Svarið við því er því miður að það er ekki hægt. Umhverfisráðherra hefur úrskurðað að þetta skuli í umhverfismat og þá verðum við að vinna þá vinnu, það er ekki hægt að taka þennan kafla út. Við erum búin að gera allt sem við getum til að kanna það vegna þess að þarna er verið að leggja veginn á sama stæði og er í dag. Það er því miður ekki hægt og sennilega voru það mistök að fara ekki strax að undirbúa gögnin á þessum vegarkafla í umhverfismat, þá væri það sennilega að verða tilbúið til útboðs. En það jákvæða er það, og miðað við þennan fund sem ég hef nýlega haldið um þetta mál, að Vegagerðin telur að þetta umhverfismat sé búið um þetta leyti á næsta ári. Við gætum því verið að bjóða þetta verk út í janúar/febrúar á næsta ári og framkvæmdir gætu þá hafist á þessum kafla fyrir það fé sem við erum með í áætlun. Og ég ítreka að ég vona að það aukist og þá getum við komist í það verk um þetta leyti eða í sumarbyrjun á næsta ári.