138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[12:52]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að landið eigi að vera eitt kjördæmi. Í hvert sinn sem ég hlýði á eða tek þátt í umræðum á Alþingi um samgönguáætlun eflist ég og styrkist í þeirri skoðun minni að það sé ekki seinna vænna að gera Ísland að einu kjördæmi. Ég skil það mjög vel að þingmenn kjörnir í landsbyggðarkjördæmum komi upp og ræði sérstaklega vegaframkvæmdir eða skort á þeim í sínum landshlutum. Ég gæti náttúrlega gert slíkt hið sama um mitt kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, fjölmennasta kjördæmi landsins, en ég ætla að láta það vera núna.

Mig langar, í tilefni þeirrar umræðu sem orðið hefur um úrskurði umhverfisráðherra, að leiða það fram í umræðunni að hefði þáverandi hæstv. umhverfisráðherra í ársbyrjun 2007, sem þá var Jónína Bjartmarz, hreinlega úrskurðað um umhverfsmat á veginum í gegnum Teigsskóg, eins og hann er oftast kallaður í umhverfisráðuneytinu, væri væntanlega búið að leggja þann veg núna. En þáverandi ráðherra ákvað að fara í einhverja vegferð í úrskurði sínum sem var ekki, samkvæmt dómi Hæstaréttar, í anda laganna. Það vita hæstv. ráðherrar, fyrrverandi og núverandi, að það er alltaf vegferð sem endar ekki vel, hvað sem okkur finnst um löggjöfina þá er það okkar að breyta löggjöfinni.

Ég vil vara við því að þingmenn fari hingað upp og mæli fyrir sérlögum um tiltekna vegi eða tilteknar framkvæmdir því að hvar mundi það enda? Frú forseti, hvar mundi það enda hér á hinu háa Alþingi og í umræðum um aðrar framkvæmdir í öðrum kjördæmum, aðra vegi? Ég verð að segja eins og er að það gæti orðið okkur afar hættulegt og háskalegt ferðalag að leggja í. Um leið vil ég taka það skýrt fram að ég hef fullan skilning á þeim viðhorfum sem kalla fram þessa ósk. Ég held að við séum öll sammála um að vegir á sunnanverðum Vestfjörðum eru óboðlegir því fólki sem þar býr og þeim sem þar þurfa að fara um.

Nú skulum við læra af reynslunni, frú forseti, og ekki fara í skyndireddingar, ætla ég að leyfa mér að segja, því að þá sitjum við uppi með það sem fordæmi á löggjafarsamkomunni og enginn veit hvernig það gæti farið. En um efni máls, um samgönguáætlun þá sem hér liggur fyrir, langaði mig til að nefna nokkur lykilatriði sem ég fagna og tel mjög mikilvæg.

Fyrst er það að í markmiðskaflanum um greiðari samgöngur, sem er í nokkrum liðum, er lögð mikil áhersla á almenningssamgöngur, reiðhjólanotkun, það að auka umferðarflæði, eins og það heitir, á þungum vegum, eins og t.d. á höfuðborgarsvæðinu, auk þess að kanna hagkvæmni þess að koma aftur á strandsiglingum eða siglingum á ekjuskipum, held ég að hæstv. samgönguráðherra hafi sagt, sem er orð sem ég kunni ekki og bæti því nú í orðasafnið. Þetta eru allt afar brýn og verðug markmið og það sem þarf að hafa í huga við áætlun sem þessa þrátt fyrir listana um einstakar framkvæmdir og hversu brýnar þær eru — og ég held að að mörgu leyti megi segja að langflestar þeirra framkvæmda sem hér eru listaðar upp séu ekki bara þarfar heldur nokkuð brýnar — eru heildarmarkmiðin fyrir almannahagsmuni allra íbúa í þessu landi og almenn markmið stjórnvalda. Þau markmið skipta, að ég tel, mestu í þessari umræðu. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að þau séu skýrt fram komin í upphafi áætlunarinnar og varði almenningssamgöngur, sjálfbærar samgöngur eins og það er kallað, og öryggismál. Öryggismálin eru grundvallaratriði í því sem hér er fjallað um.

Mig langar að koma inn á eitt atriði vegna þess að í ályktunartextanum segir, með leyfi forseta:

„Lokið verði við að breyta skattlagningu eignarhalds og notkunar bíla með þeim hætti að neyslugrannir bílar, t.d. tvinnbílar, tengiltvinnbílar, bílar sem nota vistvænt eldsneyti og bílar sem nota gasolíu sem eldsneyti verði fýsilegri kostur en nú er.“

Þessi vinna er í gangi. Mig langar til að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort sú vinna sem unnin var í samvinnu nokkurra ráðuneyta undir forustu fjármálaráðuneytisins, sem var skýrsla um skattlagningu á eldsneyti, þar sem markmiðið var að draga úr losun — þar af leiðandi var markmiðið m.a. að gera þessa umhverfisvænu bíla ódýrari og betri og hagkvæmari í innkaupum — hvort sú góða skýrsla hafi verið lögð til grundvallar í þeirri vinnu sem nú fer fram. Ég vil hvetja ráðherrann sérstaklega áfram í þessum efnum af því að með almennilegri markmiðssetningu og löggjöf um þetta náum við svo mörgum markmiðum í einu.

Ég vil líka fagna sérstaklega því sem hér er um bætt umferðarflæði, almenningssamgöngur, öryggisaðgerðir, hjóla- og göngustíga, göngubrýr og undirgöng í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi, það eru sem sagt þrjú kjördæmi, og eins og allir vita býr þar þorri landsmanna. Þar er áætlað að setja á næsta ári rúmlega 900 millj. kr. í þessar framkvæmdir. Þetta eru öryggisaðgerðir, þetta eru hjóla- og göngustígar, þetta er umferðarflæði, þetta varðar almenningssamgöngur, göngubrýr og undirgöng. Allt þetta skiptir gríðarlega miklu máli á suðvesturhorninu og höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru háar upphæðir, þetta eru tæplega 2 milljarðar á tveimur árum, en ég vil halda því fram að fyrir þessa peninga séum við að fá býsna mikið á þessu svæði í þjónustu við íbúa og þá sem ferðast um á höfuðborgarsvæðinu sem eru auðvitað langflestir landsmenn.

Mig langar í öðru lagi að inna hæstv. ráðherra eftir undirbúningi langtímastefnumörkunar um almenningssamgöngur en hér segir að leggja eigi hana fram, langtímastefnumörkun til 12 ára, í haust, hvernig sú vinna gangi og hvort samhljómur sé þar um stefnumörkun. Auðvitað kemur þetta í ljós þegar plaggið er lagt fram en því þarf að fylgja vel eftir. Allra síðast vildi ég koma inn á það sem í þingsályktunartillögunni er kallað fræðsla og áróður í 6. kafla tillögunnar. Ég held nefnilega að það sé líka dæmi um litlar fjárhæðir sem skili mjög miklu til vegfarenda, til barna og unglinga eins og við þekkjum, en líka til fullorðins fólks af því að ég held að það þurfi líka að endurmennta stóran hluta íslenskra ökumanna með tilliti til öryggismála, með tilliti til þeirra umferðarlaga og reglna sem eru í gildi í landinu og líka með tilliti til umhverfisins og kannski síðast en ekki síst með tilliti til þess að bannað er að aka utan vega á Íslandi.

Við gerum stundum mikið úr því að þetta þurfi að kynna fyrir útlendum ferðamönnum sem hingað koma og leigja bíla. Ég held að það þurfi ekkert síður að kynna mörgum Íslendingum þá einföldu staðreynd að það er bannað að aka utan vega á Íslandi. Ég veit að á því sviði er mikil vinna í gangi og að hæstv. umhverfisráðherra fer fyrir því. Í samgöngumálum erum við oft að tala um þúsundir milljóna og jafnvel tugi milljarða í sambandi við einstakar framkvæmdir en hér erum við kannski að tala um nokkrar milljónir, tugi milljóna, eða nokkur hundruð eins og ég nefndi áðan, en það getur skilað miklum þjóðhagslegum ábata fyrir utan það að stuðla að auknu öryggi vegfarenda um allt land.