138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki markmið mitt eða nokkurs annars að setja lög um þetta verkefni sem hv. þingmaður talaði um. Ef við eigum ekki annarra kosta völ þá er það að mínu mati ekki bara réttlætanlegt heldur er það brýnt. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, vitaskuld breytum við ekki dómi Hæstaréttar, hann er endanlegur. En við getum brugðist við dómi Hæstaréttar eins og margoft hefur verið gert á þinginu þegar Hæstiréttur hefur kveðið upp úrskurð í einhverjum málum sem menn hafa talið nauðsynlegt að bregðast við. Það hefur verið gert með nýrri lagasetningu, það er ekkert nýtt í því.

Ef deilt er um lagatextann, deilt um keisarans skegg eða deilt um það hvort megi taka með í umhverfismatið skírskotun til hugtaksins umferðaröryggis þá ætti málið að vera tiltölulega auðleyst. Ég hafði ímyndað mér og tel að hafi vakað fyrir kærendum að það ætti ekki að leggja veginn út Þorskafjörð né að þvera Gufufjörð og Djúpafjörð. Um þetta snerust alltaf deilurnar. Ég hef ekki haft ímyndunarafl til að ímynda mér að málið væri öðruvísi því þannig var þetta lagt upp. Ef málið snýst ekki um að hægt sé að leggja veg í friði og af virðingu fyrir umhverfinu þá hef ég misskilið það hrapallega. Ég hef labbað þessa leið oftar en einu sinni og ég hef kynnt mér mjög vel úrskurð ráðherrans, úrskurð Skipulagsstofnunar á sínum tíma og báða þessa dóma og ég er þeirrar skoðunar að það sé hægt að leggja þennan veg í friði og spekt en það verður náttúrlega ekki gert gagnvart þeim sem hafa þá kategórísku afstöðu að ekki megi leggja veg um þessar slóðir því að það trufli heimilisfrið þeirra sem þarna dvelja í einn til þrjá mánuði á hverju ári. Ég tel að það séu svo ríkar samfélagslegar ástæður að við (Forseti hringir.) verðum einfaldlega að höggva á þennan hnút