138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:08]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Rétt í lokin. Ég er sammála hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni um að þetta mál þarf að leysa. Við erum hins vegar ósammála um hvernig það verði gert og ég samþykki ekki að sett verði sérlög um tilteknar framkvæmdir. Hins vegar er það alveg rétt í ljósi þeirra dóma sem hafa fallið og þess hvernig þetta mál hefur æxlast á síðustu árum að draga má auðvitað af því lærdóm í lagasetningu. Ég held að það sé alveg ljóst og þurfi að ræða hér á hinu háa Alþingi. En það er auðvitað rétt sem hv. þingmaður segir að sumir hafa verið þeirrar skoðunar, aðrir ekki, að það mætti einfaldlega ekki fara í þessa vegarlagningu. Það er ekki valkostur að fara ekki í vegarlagningu. Valkosturinn er að finna leiðina sem hægt er að ná samstöðu um.

Væntanlega geta allir náð samstöðu um langdýrustu leiðina sem væri að bora göt í gegnum hálsana. Hún er ekki í boði, eins og stundum er sagt, en það hefði fullnægt ýtrustu kröfum allra alveg sama á hvaða skoðun menn eru um vegarlagningu, náttúruverndargildi Teigsskógar eða fjarðanna ef út í það er farið. Þetta viðfangsefni, frú, forseti, er okkar verkefni, bæði hv. þingmanna Norðausturkjördæmis, þeirra sem sitja í samgöngunefnd og okkar allra að leysa þetta mál.