138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Vegtollar eða veggjöld eru stórpólitísk spurning skoðað í heildarsamhengi. Það er ekki mikið fjármagn til framkvæmda. Viljum við með slíkum ákvörðunum flýta framkvæmdum og fara í stór verkefni sem annars væru ekki unnin, fara í þau með fjármögnun lífeyrissjóðanna að stórum hluta og þar með veggjöld? Viljum við gera það og hafa þá meira svigrúm til að framkvæma annars staðar á landinu? Þetta er bara stórpólitísk spurning sem við verðum að spyrja okkur sjálf og gera upp við okkur. Veggjöld geta í mínum huga verið með ýmsum hætti, miðast við á hvaða tíma sólarhrings er keyrt og annað því um líkt og það er hægt að stýra þeim. Mér finnst að við þær efnahagslegu aðstæður sem við búum við í dag verðum við að skoða þetta með opnum huga. Ef við viljum fá meiri framkvæmdir og flýta brýnum framkvæmdum og við vitum að ríkissjóður hefur ekki tök á að skuldsetja sig umfram ákvæði sem eru í þeirri áætlun sem hann vinnur eftir, þá er þetta bara eitthvað sem við þingmenn, burt séð frá því hvar í flokki við stöndum, þurfum að skoða og meta með opnum hug.

Varðandi sérstök lög um vegaframkvæmdir, þá mæli ég ekki með slíku. Mér finnst það ekki vera góð vinnubrögð ef við þyrftum að fara að beita því eftir hvað okkur þóknast hverju sinni.