138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður stal eiginlega af mér einni spurningunni með því að svara henni undir lok ræðu sinnar. Ég ætlaði að spyrja um þá sýn sem hann hafði varðandi framtíðarfjármögnun. Hann hafði orð á þessari nýju tækni og sagði að fyrra bragði að hann sæi fyrir sér að hún kæmi í stað núgildandi gjaldtöku og þá verð ég að lýsa mig sammála honum að því leytinu til.

Ég er hins vegar ekki jafnsammála honum um að ekki þurfi að hafa áhyggjur af persónuverndarsjónarmiðum. Mér finnst þetta ógnvænleg framtíðarsýn að vissu leyti þrátt fyrir dulkóðun. Ég sé þó ekki fyrir mér að einhver einn maður sitji í Vegagerðinni og fylgist með öllum landsmönnum, þótt hann gæti það. Þetta er eitthvað sem við þurfum að ræða í þessu samhengi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um gjaldtöku á stofnbrautum út úr Reykjavík. Hún hefur komið til umræðu, m.a. á sameiginlegum þingmannafundum í kjördæmi okkar, Suðurkjördæmi. Mikil andstaða hefur komið fram við hana, einkum á Suðurlandsvegi þar sem ekki er um aðra leið að ræða og er því frábrugðið Hvalfjarðargöngunum í þeim efnum. Á Suðurnesjum heyri ég mikil andmæli við þetta, því ef litið er til sögunnar var gamli Keflavíkurvegurinn byggður með gjaldtöku og Suðurnesjamenn segja: „Við erum búin í þessum pakka,“ ef svo mætti segja. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji þetta réttlætanlegt.

Þegar ég heyri hv. þingmann tala um samgöngumál dettur mér óneitanlega Grænás í hug. Ég hef áhuga á að vita hvað því útboði líður en við þingmenn kjördæmisins lukum sameiginlega því verki. Það átti að bjóða út, ef mig misminnir ekki, í febrúar.