138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:15]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna þess sem hv. þingmaður getur í ræðu sinni um persónuverndarsjónarmið tel ég mjög brýnt að fyllsta öryggis sé gætt í þeim efnum. Ég held reyndar að svo sé ekki í sambandi við þær margvíslegu upplýsingar sem ég nefndi áðan, til að mynda þau gögn sem verða til með eftirlitsmyndavélum í borginni og á vegum úti og það sem ég nefndi t.d. um skrásetningu á hvaðan símtöl úr farsímum koma o.s.frv. Ég held að víða sé pottur brotinn í persónuverndarmálum. Það þarf auðvitað að gæta sérstaklega að því. Ég tel vel gerlegt að ganga úr skugga um að ekki verði einhver einn maður sem gíni yfir þeim upplýsingum.

Ég vil líka koma inn á þær spurningar sem hv. þingmaður ber til mín varðandi veggjöldin að kerfið sem ég lýsi ber það í sér að menn yrðu ekki með einhver sérstök svið inn og út úr borginni. Ég sé ekki fyrir mér að þannig verði framtíðargjaldtöku háttað í umferðinni. Hins vegar nefndi ég það sérstaklega í fyrri ræðu minni að ég teldi fullkomlega eðlilegt að þegar sett yrði upp slíkt kerfi fyrir umferðargjald sem samræmt væri um allt landið að sérstakt gjald væri fyrir að aka á vegum með aðskildum akreinum. Lykilatriðið er að það eru öruggustu vegirnir og með því að leggja eins marga slíka og hægt er björgum við mannslífum. Þess vegna skiptir tíminn miklu máli. Ég segi einfaldlega: Ef það kostar okkur að leggja slíka vegi og við getum flýtt því að aðskilja akstursleiðir með þessum hætti þá er ég tilbúinn til að gera það með því fororði að tryggja öryggi borgaranna í landinu.