138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir mannslífum og er tilbúinn að leggja ýmislegt á mig sem skattgreiðandi til að tryggja að vegir landsins verði gerðir öruggir. Ég held að valkosturinn sé ekki að setja á veggjald eða hafa óörugga vegi. Ég held að við séum með þriðja valkostinn sem er fjármögnun úr ríkissjóði og ef við erum að tala um að taka fé af almenningi í landinu til að bæta þessa vegi af hverju tökum við þá ekki bara umræðuna um hvernig við forgangsröðum fjármunum ríkissjóðs? Það er þá þriðji valkosturinn og ef ástæða er talin til að fara í einhver sérstök verkefni með einhverjum sérstökum hætti þá eru til ýmsar leiðir til að afla fjár án þess að rukka endilega íbúa á ákveðnum svæðum sem þurfa mest að nota þessa vegi.

Ég fagna því sem hv. þingmaður sagði um persónuverndarsjónarmiðin. Ég hef kannski misskilið hann eitthvað og biðst forláts á því. Ég ítreka spurningu mína varðandi Grænáshringtorgið þar sem framkvæmdir áttu að byrja í febrúar ef mig ekki misminnir til að vera komnar — ég man að við ræddum það — vel af stað og vel á veg fyrir ferðamannastrauminn sem er að hellast yfir okkur. Þar sem hv. þingmaður situr í verkefnisstjórninni um Landeyjahöfn og nefndi að búið væri að tilkynna að hugsanlega gæti orðið seinkun á opnun hafnarinnar vil ég spyrja hvort það hafi verið rætt í verkefnisstjórninni og hvort einhverjar frekari dagsetningar liggi fyrir um það efni. Þingmaðurinn nefndi tvær eða þrjár vikur, er búið að fara yfir og meta hversu mikil seinkunin gæti orðið?