138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:33]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Miðað við þá forsendu sem hv. þingmaður gefur sér er mjög auðvelt að reikna sig í hvaða upphæð sem er í veggjöldunum. Það er líka hægt að hugsa sér ákveðið hámark á þau þannig að hver einstaklingur geti ekki farið yfir visst þak. Íbúi í Reykjanesbæ væri hugsanlega mjög fljótur að fara upp að því þaki og þyrfti þá ekki að borga meira en sem því næmi.

Ég vil aðeins segja vegna Landeyjahafnar að auðvitað er ekki útilokað að það verk geti orðið á áætlun. Hins vegar er útlit fyrir og menn ættu að búa sig undir að það gæti orðið seinkun á því. Auðvitað hafa allir skilning á því í ljósi þeirra hamfara sem hafa átt sér stað fyrir austan enda vita allir um hvers lags kraftaverkamenn er að ræða í verklegum framkvæmdum í því verktakafyrirtæki sem hefur tekið að sér það verk.

Vegna þeirrar framkvæmdar vil ég líka segja að það er gríðarlega ánægjulegt fyrir okkur sem komum að stjórnmálum á þessu svæði að sjá þá bjartsýni sem svona framkvæmd getur haft í för með sér fyrir eitt byggðarlag, hvort sem um er að ræða sveitirnar í Rangárþingi eystra eða undir Eyjafjöllum, vegna þess að allir sjá fyrir sér einhverja möguleika í þessari hafnargerð. Á sínum tíma þegar Vestmannaeyingar skiptust í þrjá hópa og vildu ýmist fá hraðskreiðari Herjólf í Þorlákshöfn, jarðgöng til Vestmannaeyja eða Landeyjahöfn var erfitt að sjá fyrir sér þá eindrægni sem nú ríkir um þessa framkvæmd í Landeyjahöfn. Það er gríðarlega mikilvægt, og ánægjulegt að sjá að hv. þm. Árni Johnsen, sem reyndar var 1. flutningsmaður að þingsályktunartillögu um Landeyjahöfn, hefur látið af öllum sínum hugmyndum um jarðgöng — í bili — og er farinn að taka þátt í því með okkur hinum að fagna þessari framkvæmd.