138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:39]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Siglingaleiðin milli lands og Eyja fer niður í 10 km. Það er álíka vegalengd og frá Lækjartorgi að Elliðaárbrekkunni. Auðvitað verður traffík af litlum bátum þarna, gúmmítuðrum og slíkum bátum sem Eyjamenn hafa notað til áratuga til að skjótast kringum Eyjar o.s.frv. Auðvitað munu fleiri, Rangæingar og Sunnlendingar aðrir, vilja geta brugðið sér á flot í fyrstu höfninni á Suðurlandi í Íslandssögunni. Það verður ekki stöðvað.

Ekki í einni einustu höfn á landinu er tekið gjald af slíkum bátum þannig að það er lítil tekjuvon og þar að auki mismunun þannig að mannlífið verður að fá að anda og menn verða að fá að hreyfa sig án þess að vera rukkaðir í hverju spori, hvort sem þeir sigla míluna eða ganga kílómetrann. Það er ekki hægt að mæla með hugmynd að gjaldtöku í þessum efnum. Þetta er einfaldlega öryggisþáttur því að ef litlir bátar koma þarna inn við misjafnar aðstæður, þó að öllu jöfnu færu þeir inn við góðar aðstæður, getur munað öllu upp á öryggið að þeir geti farið að einhverjum stað þar sem öryggis er gætt, þar sem er viðlegukantur, skjól eða eitthvað slíkt, að þeir séu ekki að berja bátunum utan í hafnargarðana til að komast á land eða lenda í fjöru þar sem lítil hreyfing getur valdið tjóni á slíkum bátum. Þetta er bara hlutur sem þarf að vinna úr. Það er ekki málið, held ég, hvernig þetta er en auðvitað verður að reikna með eðlilegri umferð venjulegs fólks á fleytum sínum um þessa höfn.