138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Það er stundum sagt að í umræðum um samgönguáætlanir birtist kjördæmapot í sinni hreinustu mynd. Sumir eru jafnvel fullir vandlætingar á umræðu af þessu tagi. Ég vil nota upphaf míns máls til að lýsa því yfir að ég tek ekki undir þau sjónarmið. Ég held að við séum að ræða einstaklega brýn mál sem brenna á mjög mörgum Íslendingum og við eigum ekki að láta það trufla okkur í umræðunni þó að þingmenn kjördæma komi fram með málefni tengd samgöngumálum sem eru einkum og sér í lagi tengd þeirra kjördæmum. Við eigum að líta á það sem kost vegna þess að þingmenn kjördæma búa yfir vitneskju sem þeir hafa beint frá fólkinu í kjördæminu um ástand vega og þeir geta komið þeirri vitneskju á framfæri hér til að við fáum einhvers konar pott af vitneskju um það hvað brennur mest á fólki. Í þessu samhengi vil ég líka segja að þegar öllu er á botninn hvolft lít ég svo á að við séum að ræða um landið í heild. Sem þingmaður Norðvesturkjördæmis legg ég áherslu á Dýrafjarðargöng vegna þess að ég er fulltrúi þess kjördæmis og heyri hvað brennur á fólki þar og ég er líka þátttakandi í alls konar áætlanagerð um að efla Vestfirði sem sóknarsvæði. Við vitum öll og ég veit að þingmenn allra kjördæma sem eru hér inni vita að það er ekki hægt að tala um að byggja upp Vestfirði sem eitthvert sóknarsvæði öðruvísi en að þar geti fólk ferðast á milli byggðarlaga. Þetta skilja allir en það er eðlilegt að einkum og sér í lagi þingmenn Norðvesturkjördæmis komi þessu á framfæri.

Tveir hollvinir Árneshrepps hafa talað hér, þeir skipuðu sér nr. 1 og 2 þannig að ég er væntanlega hollvinur nr. 3. Ég legg mikla áherslu á að vegurinn upp í Árneshrepp verði lagaður og þegar við tölum um svona vegi, Árneshrepp — 50 manns búa þar — vaknar líka önnur hugleiðing sem mér finnst mjög mikilvæg og lýtur að þessu sama, við erum auðvitað að tala um landið í heild, vegur er ekki bara fyrir þá sem búa þar heldur líka fyrir þá sem vilja fara þangað. Vegur norður í Árneshrepp er ekki bara fyrir þessa 50 sem keyra fram og til baka heldur líka fyrir hina 300.000 sem vilja mögulega einhvern tíma á lífsleiðinni — og hefðu gott af því — að fara norður í Árneshrepp, (Gripið fram í.) vera þar aðeins og íhuga. Við erum alltaf að tala um vegakerfi sem nýtist Íslendingum öllum með einum eða öðrum hætti.

Hins vegar hafa umræður um samgöngumál á meðal þingmanna oft haft á sér svolítið einkennilegan blæ þar sem menn hafa sett fram óskalista og stundum hefur ekki verið alveg gagnsætt eða faglegt hvaða ákvarðanir hafa verið teknar í þeim efnum. Þess vegna var mikið framfaraskref stigið í upphafi 9. áratugarins þegar ágætur þáverandi samgönguráðherra ákvað að tekið skyldi upp það verklag að setja fram samgönguáætlanir, að við skyldum ræða þessi mál fram í tímann. Nú bregður svo við að samgönguáætlun er frekar seint á ferðinni. Það er af skiljanlegum orsökum, það fór allt á hliðina í íslensku samfélagi, en nú er hún komin fram og það er ástæða til að fagna því og að segja: Betra seint en aldrei. Það er mikilvægt að við látum ekki neitt hökt koma á þetta verklag, heldur höldum áfram að gera samgönguáætlanir. Og nú ríður á að fá langtímaáætlunina. Það ríður einstaklega mikið á að fá langtímaáætlunina núna vegna þess að við lifum einmitt krepputíma og áætlanirnar sem eru núna til 2011 og 2012 eru ekki sérstaklega spennandi af sjónarhóli framkvæmdamanna í samgöngum. Það er bara reynt að halda í horfinu, klára það sem er byrjað á, og byrjað á afskaplega fáum nýframkvæmdum. En þegar við siglum í gegnum þennan öldudal, svo ég noti algengt líkindamál, verðum við að vita hvert við erum að fara, við verðum að vita hvað er handan við hornið.

Svo talað sé um Dýrafjarðargöng, það væri strax betra ef við vissum að þau væru sett á 2013 eða 2014, að við vissum að farið yrði í að hanna veginn um Dynjandisheiði og svoleiðis þannig að það er gríðarlega mikilvægt að fá langtímaáætlanirnar fram í dagsljósið sem allra fyrst. Þær hafa áhrif á það hvernig við tölum um þessa áætlun í augljóslega vondri stöðu. Einhvern tíma birtir samt til og við eigum að vita hvað við ætlum að gera þá.

Þá er eitt sem við ræðum mjög mikið, og höfum rætt dálítið mikið í dag, framtíðarskipulag á gjaldtöku af vegakerfinu, hvernig við eigum að fjármagna vegakerfið. Við höfum rætt vítt og breitt um vegtolla, bæði í dag og undanfarið í umræðum um samgöngumál. Ég fagna því og held að það sé gott að við notum kreppuna til að ræða grundvallaratriði, til þess að ræða það hvernig við ætlum að fjármagna samgöngukerfið í framtíðinni. Ég tek undir með hv. þm. Róberti Marshall, það er margt spennandi varðandi vegtolla. Maður getur séð fyrir sér marga möguleika sem opnast í því að taka yfir höfuð upp vegtollakerfi á Íslandi, setja kubba í bíla og ná þannig að stýra álagi á umferð, stýra gjaldtökunni betur, jafna út kostnað af umferð og þess háttar. Mér finnst samt alltaf jafnæpandi að um leið og við tölum um að fjármagna vegakerfið með vegtollum einhvern tíma í framtíðinni ýtum við alltaf á undan okkur þeirri grundvallarstaðreynd að við tökum nú þegar gríðarleg gjöld af bifreiðaeigendum. Bifreiðaeigendur greiða í ríkissjóð u.þ.b. 30 milljarða kr. á ári. Það eru aksturstengd og bifreiðatengd gjöld, eldsneytisgjald, almennt vörugjald af bensíni, sérstakt vörugjald af bensíni, olíugjald, bifreiðagjald og vörugjald af ökutækjum. Það er áætlað í fjárlögum 2010 að þessi innkoma verði tæpir 27 milljarðar kr. og þá eru ekki inni í þessu vörugjöld af varahlutum og ekki virðisaukaskattur af eldsneyti. Eins og ég sagði fyrr í dag greiðir t.d. íbúi sem keyrir daglega í vinnuna frá Selfossi til Reykjavíkur og til baka, eina 100 km á dag, 1.000 kr. í ríkissjóð á dag. Lengst af hafa þessi gjöld, þeir 30 milljarðar kr. sem hafa verið að jafnaði undanfarin ár, ekki farið í framlög til vegamála. Innan við helmingur hefur skilað sér til vegamála. Það er kannski alveg skiljanlegt, sérstaklega núna þegar illa árar í ríkisbúskapnum, að við verðum að nota þennan pening í eitthvað annað en við blasir þessi grundvallarspurning: Ætlum við að nota gjöld sem koma inn frá bifreiðaeigendum úr akstri til uppbyggingar í vegamálum yfir höfuð? Við verðum að byrja á því að svara þessari spurningu og svo ákveða hvernig fyrirkomulag gjaldtökunnar á að vera. Það að taka upp vegtolla svarar ekki þessari spurningu. Við getum alveg eins krukkað í núverandi kerfi.

Ein spurning sem blasir við svo maður leyfi sér að hugsa upphátt í fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu: Hvað ef við hefðum ákveðið fyrir einhverjum áratugum, kannski um leið og við ákváðum að gera samgönguáætlanir að viðvarandi verklagi, að við skyldum láta öll gjöld sem eru aksturstengd eða koma inn frá bifreiðaeigendum renna til uppbyggingar vega? Hvar stæðum við núna ef við hefðum haft þetta sem meginreglu í 15 ár? Kannski væri búið að gera göng til Eyja — þótt ég reyndar efist um það. Ég mundi halda að við værum með Dýrafjarðargöng, mjög gott vegakerfi úti um allt land og við værum líklega með Sundabraut. Fyrir 30 milljarða kr. á ári sem er innkoma frá bifreiðaeigendum gætum við gert ansi mikið og ég held að allir sjái að ef búið hefði verið að fara í allar þessar nýframkvæmdir værum við núna með vegakerfi sem kostaði mun minni peninga, bæði fyrir þjóðfélagið í heild og líka í viðhaldi.

Þetta er nærtæk spurning vegna þess að við gerum þetta á öðru sviði, í veitukerfinu. Það væri gjörsamlega fráleitt að við stæðum hérna núna og veltum fyrir okkur kaldavatnsleiðslunni í Dölunum eða einhverju svoleiðis vegna þess að það var náttúrlega ákveðið fyrir löngu að í þetta skyldi farið með sérstöku batteríi sem er í opinberri eigu og þessu öllu komið í lag. Spurningin er: (Forseti hringir.) Af hverju gerðum við þetta ekki við vegakerfið? Og spurningin er: Eigum við að gera þetta við vegakerfið líka?