138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég missi hv. þm. Guðmund Steingrímsson úr salnum ætla ég að þakka honum fyrir umfjöllun hans um gjaldtökuna og fjármögnun til vegagerðar. Hann var með marga af þeim punktum sem ég ætlaði að ræða, m.a. einmitt þann sem virðist oft gleymast í þessari umræðu, þann sem ég reyndi að benda á í stuttu andsvari við hv. þm. Róbert Marshall áðan, að það eru aðrar leiðir til að fjármagna framkvæmdir í samgöngumálum en að setja á sérstaka vegtolla. Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson orðaði það væri kannski ágætisbyrjun að nota til vegagerðar þá fjármuni sem eiga að renna til vegagerðar. Allir vita að samgöngur, hvort sem eru bílar, varahlutir, bensín eða annað sem tilheyrir, eru uppáhaldstekjustofn a.m.k. fjármálaráðherrans og þá ætti hæstv. … (Samgrh.: Þú þekkir það vel.) Ég þekki það vel sem fyrrverandi aðstoðarmaður fjármálaráðherra þannig að ég hvet hæstv. samgönguráðherra til að minna á sinn hlut í þeim efnum áður en farið verður í að setja upp vegtolla um allar koppagrundir.

Ég vil gera þessa hluti að umtalsefni, kannski meira almennt en verið hefur hérna núna. Mig langar að fjalla um gjaldtökumál en þó vil ég líka aðeins ræða um einstök verkefni í framhaldi af því sem við vorum að ræða um gjaldtökur, hvort sem um er að ræða Suðurlandsveg, Reykjanesbraut eða annað. Sú hugmynd sem varpað hefur verið fram sem einhvers konar framtíðarsýn, að setja gjald á allar stofnbrautir út úr Reykjavík, í hvaða átt sem er, finnst mér sláandi við fyrstu sýn. Þegar ég les svo þessa tillögu til þingsályktunar sé ég hvað þetta fer strax gegn því markmiði um jákvæða byggðaþróun sem er tekið hér sem eitt af helstu markmiðum hæstv. samgönguráðherra í áætluninni.

Í áætluninni segir á bls. 3:

„Horft verði til mikilvægis einstakra framkvæmda sem hvata til að skapa heildstæð atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæði.“

Það er ekki nóg að setja markmiðin svona fram, heldur verður þá líka að hugsa málið til enda. Eins og hérna hefur verið bent á — hv. þm. Árni Johnsen nefndi upphæðina 100.000 kr. fyrir íbúa á Suðurnesjunum að koma til vinnu í Reykjavík — held ég að það dragi heilmikið úr hvata hins almenna borgara sem sækir vinnu í Reykjavík og vill búa á því frábæra svæði Suðurnesjunum ef hann þarf að borga 100.000 kr. á ári til viðbótar við kostnað af bensíni og öðru. Það gæti sett þau áform í uppnám. Ég hvet því hæstv. samgönguráðherra til að hafa öll þau markmið sem hann er sjálfur að setja hér fram að leiðarljósi í þessu öllu saman.

Mig langar líka að endurtaka það sem ég sagði áðan um Suðurlandsveginn. Það er svo gamalt mál, það er búið að lofa honum margoft. Ég er ný í þessum bransa, ef svo mætti segja, en þetta er gömul saga og ný og ég veit að það yrði aldrei sátt um það, hvort sem er meðal íbúa Suðurlands eða annarra sem þurfa að fara um þennan veg, ef þar yrði tekið gjald þar sem ekki er hægt að velja um aðra leið, ekki nema ef hugsa ætti um landið allt. Þá nefni ég sérstaklega ein göng í nágrenni hæstv. samgönguráðherra, Héðinsfjarðargöngin, sem voru byggð fyrir skattfé en ekki með notendagjöldum eins og hæstv. ráðherra veit.

Landeyjahöfn hefur verið aðeins til umfjöllunar. Ég ætla ekki að endurtaka orðaskiptin frá því áðan en tek undir það sem var rætt um smábátahöfn og annað. Mig langar aðeins að gera að umtalsefni samninginn við Eimskip sem búið er að gera um siglingar milli lands og Eyja. Nú er verið að búa til áætlun og raða ferðum inn í hana. Miklar vonir eru bundnar við þá stórkostlegu samgöngubót sem þarna er að verða að veruleika, hvort sem er hjá íbúum í Vestmannaeyjum eða á fastalandinu. Hjá þeim þjónustukjarna sem helst er talað um á Suðurlandi eru miklar vonir bundnar við þessa framkvæmd, einmitt með tilliti til þess að í framtíðinni er hægt að horfa á þetta sem eitt svæði, t.d. sem atvinnusvæði. Það er verið að tala um að samnýta sjúkrahús, framhaldsskóla, íþróttamannvirki og það að fólk geti unnið á öðrum staðnum og búið hinum megin við sundið, ef sund mætti kalla, annaðhvort í Vestmannaeyjum eða á fastalandinu.

Þetta er ekki hægt nema það sé stöðugleiki í áætluninni, stöðugleiki allt árið um kring. Nú vil ég benda hæstv. ráðherra á að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hefur bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum ekki verið leyft að sjá samninginn við Eimskip. Þau hafa ekki getað skoðað hann en þó voru þau líka bjóðendur í verkefnið. Miðað við þá útreikninga og þær upplýsingar sem liggja fyrir telst þeim til að 17 milljónir vanti inn í þennan samning til að hægt verði að tryggja fjórar ferðir á dag allt árið um kring. Það eru álagstoppar og ákveðin tímabil þar sem eru fleiri ferðir, færri ferðir hins vegar yfir hávetrartímann, og það er í sjálfu sér skiljanlegt að viðkomandi reyni að setja ferðir upp þannig að skipið verði fullnýtt. Það má samt ekki horfa á þetta eingöngu þannig. Þarna er ekki bara um að ræða ferju á milli, heldur má líkja þessu við þjóðveg á milli lands og Eyja. Jafnvel þótt skipið verði ekki alltaf fullt er áætlunin svo mikilvæg, ekki síst þegar kemur að því atriði sem ég nefndi áðan, að menn sækja vinnu til og frá og verða að geta gert það allt árið um kring.

Við getum líka horft á nýtingu íþróttamannvirkja. Ef t.d. íþróttalið úr Vestmannaeyjum ætlar í keppnisferð um helgi en helgarferðin er lögð af kemur aukinn kostnaður í hlut þess og skaðar þá möguleika sem þessi mikla framkvæmd og allt þetta stóra dæmi getur haft í för með sér. Ef 17 milljónir í þessum stóra pakka yrðu til þess að hægt væri að tryggja árið um kring fjórar ferðir á dag milli lands og Eyja er það gríðarlega mikilvægt. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra til að leggja sig fram um að koma þessu í kring. Fyrir 17 milljónir er hægt að kaupa 125 ferðir. Ég vildi gera þetta að umtalsefni og hvet hæstv. ráðherra áfram í málinu.

Rétt aðeins í lokin, af því að tíminn líður hratt í þessari umræðu, aftur að þessum gjaldtökuhugmyndum. Í umræðu um þessa GPS-mælitækni verð ég að viðurkenna að ég kemst ekki yfir þetta persónuverndarþref. Mér finnst þetta mjög alvarlegur hlutur, nokkuð sem ber að höndla mjög varlega. Þetta þarf miklu meiri umræðu og ég fagna því í prinsippinu að þetta sé sett fram, þó án þess að nokkur ákvörðun liggi fyrir, og ég hvet hæstv. ráðherra til að gefa þessu nógan tíma. Það er alveg ljóst að þetta er nokkuð sem þarf að útfæra og menn þurfa að vera með algjöra vissu fyrir því að ekki verði (Forseti hringir.) farið gegn persónuverndarsjónarmiðum.