138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:02]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hún fór vítt og breitt yfir eins og gengur og gerist, annars vegar um einstök verkefni í sínu kjördæmi eins og Landeyjahöfn og annað sem ég kemst ekki í að svara í stuttu andsvari. En hv. þingmaður, og það gladdi mig mjög, tók til umræðu þær hugmyndir sem uppi eru: Að flýta framkvæmdum á einstökum vegaköflum og gera framkvæmdina á þremur árum, eins og Suðurlandsveg austur fyrir Selfoss, 16–18 milljarða kr. verk, með þeim ókosti sem því fylgir að eftir þrjú, fjögur eða fimm ár, eitthvað svoleiðis, og gjörbreytt gjaldheimtukerfi til vegamála, verði kannski örlítið dýrara að keyra slíkan veg, tvöfaldan veg með aðgreindum akstursstefnum, fínum gatnamótum þar sem umferðin rennur vel eftir og jafnvel sparast einn lítri af bensíni, sem kostaði 210 kr. í dag, vegna þess að umferðin er greiðari. Eigum við að skoða þann möguleika með þeim kostum og göllum sem því fylgir eða eigum við að velja hinn möguleikann, þ.e. að gera þetta á hefðbundinn hátt? Nú erum við að ræða þessa áætlun með 7,5 milljarða á ári á næsta ári og þá getum við sagt að það væri kannski hægt að leggja 600–700, 800 milljónir í Suðurlandsveg á hverju ári í hefðbundinni ríkisframkvæmd. Það tæki upp undir 20 ár. Þetta eru tveir valkostir sem við þurfum að ræða og þeim fylgja bæði kostir og gallar. Mig langar því, virðulegi forseti, að spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta, hvort það er ekki alveg einnar messu virði að ræða þessa kosti og galla.

Síðan get ég ekki látið hjá líða, virðulegi forseti, að geta þess, af því að nú er hv. þingmaður orðin formaður þingflokks sjálfstæðismanna sem ég vil nota tækifærið og óska henni til hamingju með, að sjálfstæðismenn voru fyrstir til að setja fram í samgönguáætlun hugmyndir um einkaframkvæmd og veggjöld. Í tíð fyrri samgönguráðherra voru skrifaðar margar skýrslur um einkaframkvæmdir og veggjöld, kosti og galla. (Forseti hringir.) Einn flokkur á Íslandi hefur ályktað um það á landsfundi, og ég er (Forseti hringir.) mjög hrifinn af því, það er Sjálfstæðisflokkurinn, að hann telji alveg koma til greina að taka verk í einkaframkvæmd (Forseti hringir.) og nota þá leið sem við erum að tala um hér.