138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. samgönguráðherra kynnir sér hvað gerist á landsfundum Sjálfstæðisflokksins vegna þess að þar er margt sem hann getur lært.

Ég er ekki á móti einkaframkvæmd og ég er ekki á móti veggjöldum svo það liggi fyrir. Ég t.d. var og hef verið frá upphafi mjög hlynnt Hvalfjarðargöngunum og þeirri stórkostlegu samgöngubót sem þar um ræðir. Hins vegar er ég algjörlega ósammála hæstv. samgönguráðherra um að við höfum bara tvo valkosti og yfir það fór ég í ræðu minni.

Hæstv. samgönguráðherra setur þetta þannig fram að annaðhvort tökum við flýtileiðina og rukkum sérstaklega fyrir það eða við höfum þetta eftir gamla laginu og gerum þetta á 20 árum með tilheyrandi öryggisbresti á vegum. Ég segi nei, við erum með þriðja valkostinn og þar tók ég undir með hv. þm. Guðmundi Hermannssyni sem fór yfir það að við þyrftum — (Samgrh.: Steingrímssyni.) Steingrímssyni, afsakið, ég fór eina kynslóð fram yfir — að taka það fjármagn sem sannanlega eru tekjur af samgöngum, hvort sem það heitir bensíngjald eða tollar af ýmsum bifreiðum eða hvað það er. FÍB hefur tekið saman dágóðan lista yfir allar þær tekjur sem koma til af bílum og rekstri þeirra. Nýtum það fjármagn.

Það er líka hægt að hugsa sér að eyrnamerkja, taka hluta þess fjármagns sem kemur inn og eyrnamerkja það í stórar framkvæmdir og taka það bara þannig á áætlun. Hugsanlega væri hægt að hækka slíkt tímabundið ef þetta væri eitthvað sem við vildum fara hraðar í. Ég er þó alltaf hrædd við tímabundnar skattahækkanir vegna þess að þær vilja ílengjast og ég er ekkert sérstaklega hrifin af skattahækkunum í sjálfu sér. (Forseti hringir.) En einkaframkvæmd og veggjöld eru góðra gjalda verð, sérstaklega ef við horfum á verkefni eins og Vaðlaheiðargöng eða eitthvað slíkt, (Forseti hringir.) en t.d. á Suðurlandsveg og Reykjanesbraut segi ég bara nei takk.