138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þingmanni. Hv. þingmaður talar um þá skatta sem teknir eru af umferðinni í dag. Nú vill svo til, virðulegi forseti, að hv. þingmaður var á árum áður aðstoðarmaður fjármálaráðherra til langs tíma og ég held að aldrei hafi í tíð samgönguáætlana komið eins miklar skatttekjur af umferð og þá og jafnlítið hlutfall af þeim runnið til samgönguframkvæmda. Hvers vegna var það? Ég spyr hv. þingmann: Af hverju var þá ekki í fjármálatíð Sjálfstæðisflokksins í öll þessi ár notað meira af skatttekjum af umferð til vegamála? Hv. þingmaður kallar eftir því núna. Ég tók eftir því að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson ræddi hér um að skatttekjur af umferð væru 30 milljarðar í dag. Nú skal ég taka það skýrt fram að ég hef ekki kannað það en ég efast ekki um þau gögn sem hv. þingmaður lagði fram.

Við ræðum hér samgönguáætlun til fjögurra ára og mér sýnist við fljóta samlagningu á því að við séum að tala um áætlun upp á rúma 110 milljarða kr. til fjögurra ára. Það gerir um 28 milljarða á ári. Þá hallar ekki mikið á á þessu ári ef þessar tölur eru allar réttar, sem ég ætla hins vegar að hafa fyrirvara á af því að ég á eftir að skoða þetta betur. En ég verð auðvitað líka að taka fram, virðulegi forseti, að þá yrði ég að leggja saman tölur t.d. sem lagðar eru til umferðaröryggismála, til Umferðarstofu, og ég yrði að sjálfsögðu að leggja saman tölur sem koma til Flugmálastjórnar og flugvalla og annað slíkt. Þessir þættir eru allir lagðir saman ef við horfum á þetta.

Síðan minnist ég þess, virðulegi forseti, að þegar ég spurði fjármálaráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins út í þetta í gamla daga fékk ég alltaf það svar að stór hluti af skatttekjum af umferð þyrfti líka að fara á aðra staði í samfélaginu eins og t.d. í heilbrigðisgeirann vegna þess að heilbrigðisgeirinn ber mikinn kostnað vegna umferðarslysa og annars slíks og það er alveg hárrétt. (Forseti hringir.) En hver er stefnubreytingin hjá hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins í því sem ég gerði (Forseti hringir.) að umtalsefni hér áður fyrr?