138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[15:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mér bæði ljúft og skylt. Fyrst um Arnarnesveg. Áætlað er að hann kosti 1.260 milljónir. Þarna eru veittar 500 milljónir og vantar 760. Að sjálfsögðu verður verk ekki hafið nema klára það á árunum á eftir og það verði unnið í samfellu. Það er vel farið með fé, ég algjörlega sammála því sem hv. þingmaður sagði. Hins vegar kann að vera að kostnaðurinn við þetta lækki vegna þess að þessi vegur hefur verið hannaður sem 2+2 vegur. Ég hef stundum spurt: Er það ekki dálítið 2007-legt? Er ekki bara nægilegt að hafa þarna 1+1 veg? Það eigum við að eftir að skoða.

Kem ég þá aðeins að skiptingu fjármagns. Ég verð að segja alveg eins og er að það er eitt af því mjög jákvæða sem gerðist í umræðunni í dag og þó að menn séu að tala um kjördæmapot og annað slíkt þá eru menn að tala um sín kjördæmi þar sem þeir þekkja best til. Það er ekki kjördæmapot eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði áðan. Menn eru bara á sínum vígstöðvum og þekkja málið út og inn, eins og hv. þingmaður sem ræddi hér um Vesturlandsveg o.fl., og það er bara gott. En skiptingin, ég ætlaði að segja það að mér finnst ánægjulegt að hér fer ekki allt í háaloft á milli þingmanna innan flokka sem vina og vandamanna um skiptinguna, en hún verður auðvitað alltaf umdeilanleg. Hv. þingmaður var búinn að leggja saman til kjördæmanna núna og var með stórar upphæðir í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi, hærri en í hin kjördæmin. Það er auðvitað vegna þess að þarna er verið að byggja tvenn jarðgöng, Bolungarvíkurjarðgöng og Héðinsfjarðargöng, sem taka mikla peninga til sín.

Er það arðsemi eða er það hagkvæmni? spyr hv. þingmaður. Já, líka, en inn í það blandast einn þáttur í viðbót sem við ætlum að nota meira og mun koma meira fram í langtímaáætluninni, þ.e. félagshagfræðilegir þættir sem verða metnir inn. Þar koma inn t.d. byggðarlög, svæði, og ætlum við að efla byggðarlögin eða þurfum við að styrkja innviðina eða hvað? Við höfum verið að ræða það hér eins og á sunnanverðum Vestfjörðum sem eru með það versta vegakerfi sem til er. Já, félagsfræðilegu þættirnir munu lyfta þeirri framkvæmd mjög upp (Forseti hringir.) í arðsemi.