138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[16:11]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðuna. Ég ætla að stoppa aðeins við einn þátt sem hann nefndi, þ.e. að nú væri það þannig í okkar sögu að við þyrftum að gera meira í samgönguframkvæmdum ef eitthvað er. Þess vegna er spurning mín ofur einföld til hv. þingmanns: Er hv. þingmaður þá ekki sammála mér um að það sé full ástæða til gefa hressilega í með samgönguframkvæmdum? Við köllum það stórframkvæmd þar sem við mundum taka lán frá lífeyrissjóðunum til þess að koma verkum í gang. Við höfum talað um verk sem eru allt að 25 milljarðar kr. á næstu fjórum árum. Er hv. þingmaður sammála því? Mér finnst afar athyglisvert það sem hann segir um að gefa í í efnahagslífinu og auka atvinnu. Þetta eru mjög arðbær verk sem talað er um. Síðast en ekki síst eru þau mjög mikilvæg hvað varðar umferðaröryggi og munu skila sér mjög hratt inn í heilbrigðiskerfið með færri slysum. Öruggari vegir, aðgreindar akstursstefnur og þess vegna er spurningin ofureinföld: Er ekki hv. þingmaður stuðningsmaður fyrir því að við förum í þessar stórframkvæmdir með lánum frá lífeyrissjóðunum?