138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[16:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki við hæstv. samgönguráðherra að sakast, það eru þingsköpin sem gera það að verkum að þessi umræða er auðvitað allt of knöpp. Við ræðum um samgönguáætlanir sem eru í raun og veru þrjár áætlanir. Hér áður og fyrr voru þær ræddar í þremur pörtum. Að hafa einungis möguleika á að tala í 10 mínútur um allt þetta býður upp á ræður í miklum andateppustíl sem við höfum heyrt í dag.

Ég vil ítreka að það eru gríðarleg vonbrigði hvernig mál standa varðandi Vestfjarðavegi. Það eru mikil vonbrigði sem hæstv. ráðherra sagði okkur frá að ekki væri hægt að fara í verkefni þar, að leggja vegi nánast um gamla vegarstæðið. Það eru gríðarleg vonbrigði. Sérstaklega í ljósi þess að hæstv. núverandi umhverfisráðherra þverbraut allar reglur og lög um fresti varðandi úrskurð sinn í þeim efnum, tók sér sjö mánuði til þess eins að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar. Þessi frestur verður okkur dýrkeyptur. Hann veldur hálfs árs óþarfatöfum á að bjóða út verkefni á þessum slóðum, þar sem mikil þörf var á.

Annað sem ég vil nefna hér í þessu andsvari er að ég kalla eftir viðhorfum hæstv. ráðherra varðandi tengivegina. Við hæstv. ráðherra höfum oft rætt þetta hér á þinginu og gerum okkur grein fyrir því hversu þýðingarmikið þetta er. Við þingmenn Norðvesturkjördæmis áttum góðan fund með samgöngunefnd hins gamla Vesturlands, þar sem mikil áhersla var lögð á þetta. Við sáum að mjög mörg verkefni um tengivegi sem sett voru inn á gildandi samgönguáætlun voru horfin út og það er skarð fyrir skildi, það er mikil þörf fyrir þetta. Við vitum að tengivegirnir gefa eftir. Ég hvet menn til þess að gera átak í þessum efnum, sérstaklega með það í huga að byggja upp vegina. Það þarf ekki endilega að vera fullur burður í þeim né full breidd. Oft á tíðum er ekki mikil umferð um þessa vegi (Forseti hringir.) Það er alveg hægt að slá aðeins af kröfunum. (Forseti hringir.) Þannig næst líka betri árangur.