138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[16:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt er það, á Vestfjarðavegi er verk í gangi Það tafðist hins vegar í útboði um marga mánuði, þannig að við getum ekki hælst mikið um það. Því lýkur vonandi í haust. Þá er nauðsynlegt að halda tafarlaust áfram. Það er ekki viðunandi að á þessum vegaköflum verði a.m.k. hálfs árs töf frá því vegaframkvæmdunum lýkur í Kjálkafirði og þangað til hafist verður handa við vegalagningu á næsta ári. Það er ekki viðunandi. Það var hneyksli að hæstv. umhverfisráðherra skyldi draga það í sjö mánuði að kveða upp úrskurð sem allir vissu fyrir fram hver yrði. Hann var fyrirsjáanlegur. Auðvitað mundi ráðherra Vinstri grænna aldrei þora að fara gegn áliti Skipulagsstofnunar í þessum efnum, það veit hvert einasta mannsbarn. Það er hörmulegt að svona skuli hafa tekist til. Þetta er hörmungin ein.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra lagði áherslu á varðandi tengivegina. Á síðasta vegaáætlunartímabili tókst að auka fjármagn til tengivega sem var mjög mikilvægt. Atvinnuhættir eru að breytast. Fólk sækir vinnu um lengri veg, býr kannski í dreifbýlinu, sækir vinnu í þéttbýlið. Þetta er mikilvæg ferðamannaslóð. Allt þetta gerir það að verkum að það er bókstaflega æpt á þetta.

Við vitum líka, sem er mjög mikið áhyggjuefni, að viðhald á vegum mun dragast saman. Við vitum að það verða margir vegir illfærir á næsta sumri, vegna þess að ekki er hægt að hefla eins og skyldi. Þar vantar verulegt fjármagn. Þess vegna er það sérstaklega brýnt fyrir okkur að halda áfram á þeirri mörkuðu braut að leggja áherslu á uppbyggingu tengiveganna. Tengivegirnir skipta svo gífurlega miklu máli.

Ég árétta það og tel að stefnumótun sem kemur fram við endanlega afgreiðslu þessa máls hér á þinginu þarf að vera skýr, það verði lögð sérstök áhersla (Forseti hringir.) á uppbyggingu tengiveganna víða um land.