138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[16:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki miklu við það að bæta sem kom fram hjá hv. þingmanni hér áðan. Þetta eru hlutir sem við þurfum auðvitað að skoða í heildarskoðuninni hvað varðar Landeyjahöfn. Aðalatriðið er það að við reynum að komast áfram og klára það. Stundum þarf að taka ákvarðanir, stundum eru valkostir og margir eru að róa í mönnum og ég hugsa aftur til 2008 þegar afhentur var undirskriftalisti frá mörgum í Vestmannaeyjum sem vildu frekar gera hraðskreiða ferju á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Við hlustuðum ekki á það heldur buðum út Landeyjahöfn sem betur fer á þeim tíma, nokkrum mánuðum fyrir hrun. Ef við hefðum tekið okkur tíma þá og skoðað málið hygg ég að við værum ekki að fara að fagna opnun Landeyjahafnar á þessu sumri.

Aðeins vegna þess, virðulegi forseti, ég ætla að misnota aðstöðu mína þó að ég sé í andsvörum við hv. þm. Árna Johnsen og fara yfir í flokksbróður hans, hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson, vegna þess að hann spurði hér um tengivegi, að þá er það í fyrsta skipti í áætlun hér sem sett er inn í samgönguáætlun liðurinn Tengivegir, malbik, 380 milljónir árið 2011 og 300 milljónir árið 2012. Þetta er nýmæli og þetta sýnir áherslu okkar hvað varðar tengivegi.