138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

hafnalög.

525. mál
[16:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á hafnalögum, nr. 61/2003. Þetta mál á sér nokkurn aðdraganda sem ég tel rétt að reifa stuttlega í byrjun.

Haustið 2008 var á hafnasambandsþingi fjallað um fjárhag hafna sem í mörgum tilvikum er slæmur. Á þinginu var mikið rætt um fjárhagsvanda hafna. Í framhaldi af því ákvað ég að skipa nefnd til að fjalla um málið og koma með tillögur að lausnum. Nefnd um tillögur, um hvernig bregðast megi við fjárhagsvanda hafna, skilaði skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 18. desember sl. Þar voru ýmsar tillögur reifaðar og í ljósi þeirra er ætlunin að endurskoða hafnalögin í heild sinni. Nauðsynlegt er þó að bregðast nú þegar við tillögum hennar hvað varðar framlengingu ákvæðis til bráðabirgða um ríkisstyrki til hafnaframkvæmda, enda rennur út frestur til að fá styrki úr ríkissjóði um næstu áramót og mikilvægt að hafnir hafi aukið svigrúm vegna framkvæmda sem voru komnar á samgönguáætlun 2003–2006 við gildistöku umræddra hafnalaga. Þá þykir nauðsynlegt að skjóta styrkari lagastoðum undir innheimtu aflagjalds auk annarra smærri breytinga.

Virðulegi forseti. Markmið frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að kveða skýrar á um að innheimta aflagjalds, skv. b-lið 1. tölulið 2. mgr. 17. gr. laganna, hafi skýra lagastoð. Í öðru lagi að styrkja grundvöll gjaldtöku hafna í opinberri eigu með því að kveða skýrar á um setningu gjaldskrár, forsendur hennar og upplýsingaskyldu til notenda en gert er í gildandi lögum. Í þriðja lagi er lagt til að bráðabirgðaákvæði um framkvæmdastyrki til hafna verði framlengt um tvö ár, m.a. í ljósi erfiðra rekstrarskilyrða hafna hér á landi eins og áður sagði.

Virðulegi forseti. Ég mun nú stuttlega gera nánari grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er höfnum án sérstakrar hafnarstjórnar heimilt að innheimta gjöld skv. 17. gr. og er þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu einnig ætlað að gilda um þær hafnir eftir því sem við á. Þar sem í 17. gr. eru ítarleg ákvæði um grundvöll gjaldtöku er lögð til sú breyting í 1. gr. frumvarpsins að 2. málsliður 11. gr. falli brott enda er þar um óþarfa tvítekningu að ræða í lögunum.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að kveðið verði skýrt á um að aflagjald miðist við aflaverðmæti sjávarafurða sem umskipað er, lestaðar eða losaðar í höfnum og að það verði minnst 1,25% og mest 3% af aflaverðmæti.

Meginröksemd fyrir því að fara þessa leið er sú að tryggja frekari lagastoð fyrir innheimtu gjaldsins til reksturs og fjárfestinga hafna. Ef fara ætti aðra leið, t.d. með því að færa álagningu aflagjalds yfir í svipaða viðmiðun og vörugjaldið, þ.e. að afla verði skipað í sérstakan vörugjaldsflokk og af honum greitt fast gjald miðað við þyngd, verður mikil tilfærsla á tekjum hafna af afla. Sem dæmi má nefna skiptingu tekna af bolfiski og uppsjávarfiski. Til að tryggja að tekjur einstakra hafna haldist óbreyttar þyrfti að taka að lágmarki upp tvo nýja vörugjaldsflokka fyrir sjávarafurðir. Bolfiskur, þ.e. þorskur, ýsa og karfi sem dæmi, er til að mynda mun verðmætari en uppsjávarfiskur, þ.e. makríll, loðna, síld og kolmunni, sem fer í mun verðminni afurðir. Verði tekið upp flokkaskipt gjald fyrir afla, grundvallað á þunga aflans, þarf gjald fyrir löndun bolfisks að vera mjög hátt í þeim höfnum sem reiða sig á hann en hafa ekki mikið af annars konar afla. Verði það ekki gert mun það lækka tekjur hafna sem búa við þessar aðstæður. Flestar hafnir hér á landi eru reknar með tapi og hafa því ekki svigrúm til að bregðast við tekjumissi. Af þessum sökum sýnist eðlilegasta leiðin vera sú að gera breytingar á hafnalögum þannig að innheimta aflagjalds á grundvelli verðmætis verði ótvírætt heimil.

Þá eru lagðar til ýmsar minni háttar breytingar á 17. gr. til þess að auka skýrleika hennar, auk þess sem kveðið verði skýrt á um að stjórn hafnar skuli semja gjaldskrá fyrir höfnina þar sem nánar er kveðið á um innheimtu gjalda skv. 17. gr.

Miða skal við að gjaldtaka standi undir rekstri hafnarinnar. Til að taka af allan vafa er í 2. gr. lagt til að skýrt sé kveðið á um það að gjaldtöku hafnar sé ætlað að standa undir fjármagnskostnaði, afskriftum, kostnaði við endurnýjun hafnarinnar og stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun hafnarinnar. Miðað er við að í forsendum gjaldskrár sé tekið tillit til opinberra framlaga til framkvæmda.

Lagt er til í 3. gr. frumvarpsins að farið verði eftir ákvæðum eldri hafnalaga varðandi ríkisstyrktar framkvæmdir á gildistíma hafnaáætlunar 2003–2006 til áramóta 2012/2013. Sama gildir um heimild til að styrkja framkvæmdir í höfnum á grundvelli eldri hafnalaga, samanber lög um samgönguáætlun, nr. 71/2002. Ákvæði í 24. gr. hafnalaga, nr. 61/2003, takmarka mjög heimildir til að veita framlög úr ríkissjóði til hafnaframkvæmda frá því sem var í eldri hafnalögum, nr. 23/1994. Meginregla laganna frá 2003 er að ekki sé heimilt að veita styrki til nýrra viðlegumannvirkja og varnarmannvirkja nema þá í allra minnstu höfnunum. Áfram er þó heimilt að veita styrki til endurbóta á skjólgörðum og viðhaldsdýpkana. Undanþága frá þessum ákvæðum var veitt með bráðabirgðaákvæði II í lögunum og heimilað að framkvæmdir, sem kæmu inn í siglingamálakafla samgönguáætlunar 2007–2010, gætu notið ríkisstyrkja í samræmi við ákvæði í eldri hafnalögum, nr. 23/1994, vegna áforma þáverandi samgönguyfirvalda um að hafnir skuli jafnsettar á aðlögunartíma nýrra hafnalaga.

Vegna niðurskurðar á fjárlögum síðustu árin hefur ekki tekist að fjármagna öll þau jafnsetningarverkefni sem komust inn á samgönguáætlun 2007–2010. Því er lagt til að umrætt bráðabirgðaákvæði verði framlengt um tvö ár eða til ársloka 2012.

Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins og legg til, hæstv. forseti, til að hafa þessi orð ekki lengri, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.