138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

loftferðir.

567. mál
[16:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998.

Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur til breytinga á nokkrum ákvæðum laganna. Flestar eru breytingarnar tilkomnar vegna alþjóðlegra skuldbindinga, annars vegar vegna aðildar Íslands að Alþjóðaflugmálastofnuninni og hins vegar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði.

Umfangsmestu breytingar frumvarpsins lúta að neytendamálum. Kveðið er á um bótaskyldu flytjenda og fjárhæðir bóta eru hækkaðar. Skyldur eru lagðar á seljendur ferða eða flutnings að tryggja að upplýsingum um verð sé háttað með tilteknum hætti. Kvörtunum neytenda til Flugmálastjórnar Íslands er skapaður formlegur farvegur og stofnuninni veitt heimild til að taka bindandi ákvarðanir vegna kvartana.

Aðrar breytingar lúta aðallega að því að Flugmálastjórn Íslands eru veittar auknar heimildir, m.a. vegna ágreinings í notendanefnd flugvallar, til að taka ákvörðun um álagningu stjórnvaldssektar að tillögu Eftirlitsstofnunar EFTA eða Flugöryggisstofnunar Evrópu og heimildir stofnunarinnar til ákvarðanatöku á starfssviði sínu eru almennt styrktar. Stofnuninni er einnig veitt heimild til setningar reglna á tilteknum sviðum sem undir hana heyra.

Um nokkurt skeið hefur staðið fyrir dyrum heildarendurskoðun laga um loftferðir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Þar sem sú vinna er skammt á veg komin þykir brýnt að koma að nokkrum breytingum á lögunum, ekki síst með tilliti til þeirra stjórnskipulegu fyrirvara sem gerðir hafa verið vegna innleiðingar nokkurra gerða Evrópubandalagsins í íslenskan rétt. Verði frumvarpið að lögum verður unnt að aflétta þeim fyrirvörum og innleiða viðkomandi gerðir án frekari tafa.

Frumvarpið var samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í samvinnu við Flugmálastjórn Íslands og var sent út til umsagnar flugráðs og hagsmunaaðila auk þess sem það var birt á heimasíðu ráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Ég vík nú að athugasemdum við helstu greinar frumvarpsins. Í 5. og 9. gr. eru lagðar til heimildir fyrir ráðherra til setningar reglugerða á afmörkuðum sviðum flugsamgangna. Þá er í 2., 4. og 17. gr. Flugmálastjórn Íslands veitt heimild til setningar reglna á verksviði stofnunarinnar. Hér er aðallega um að ræða reglur er lúta að tæknilegum þáttum í rekstri loftfara eða viðhaldsstöðva.

Í 8. gr. eru innleidd ákvæði vegna Evróputilskipunar um gjaldtöku á flugvöllum en þar er lagt til að komi upp ágreiningur vegna gjaldtöku innan notendanefndar flugvallar verði aðilum heimilt að skjóta honum til úrlausnar Flugmálastjórnar Íslands. Með ákvæðinu er því aukið við hlutverk stofnunarinnar en einnig er gert ráð fyrir að sá kostnaður sem hlýst vegna úrlausnar ágreiningsins verði greiddur af þeim aðila sem óskar hennar nema niðurstaðan verði honum í vil en þá ber gagnaðila að greiða kostnaðinn. Því er ekki gert ráð fyrir að ríkisútgjöld aukist vegna þessa verkefnis.

Í 10. og 12. gr. er að finna breytingar sem tilkomnar eru vegna aðildar Íslands að Montreal-samningnum sem fjallar um sameiginlegar alþjóðareglur um bætur vegna tjóns flugfarþega. Breytingarnar snúa að hækkun fjárhæða sem flytjanda eða tryggingafélagi hans ber að greiða komi til tjóns.

Í 11. gr. er að finna nýmæli tengt neytendavernd. Í gildi eru samræmdar reglur á EES-svæðinu um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður á því. Með þeim er verið að tryggja lágmarksrétt neytenda en þar eru flytjendur sem fljúga til eða frá landinu eða innan lands gerðir bótaskyldir vegna tjóns sem verður af þeim sökum.

Í 13. gr. er einnig að finna nýmæli tengt neytendavernd og á það ákvæði rætur sínar að rekja til Evrópureglugerðar um sameiginlegar reglur um framkvæmd flugþjónustu. Í ákvæðinu er skylda lögð á flugrekendur, flytjendur, ferðaskrifstofur eða umboðsmenn framangreindra aðila að tryggja að í heildarverði fyrir ferð eða flutning séu sérgreind álögð opinber gjöld og skattar og að heildarverðið skuli ávallt sýnilegt í öllu söluferlinu. Með þessu er m.a. verið að koma í veg fyrir að rekstraraðili geti dulið almennan rekstrarkostnað undir því yfirskini að um opinber gjöld eða skatta sé að ræða og einnig til að gera neytendum mögulegt að gera raunverulegan verðsamanburð á þjónustunni.

Í 14. gr. er að finna annað nýmæli tengt neytendavernd en þar er skapaður formlegur farvegur fyrir kvartanir neytenda. Þrátt fyrir að ákvæði um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum, sem neitað er um far þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður á því, hafi verið í gildi frá árinu 2005 hefur gengið erfiðlega fyrir farþega að sækja rétt sinn gagnvart flugrekendum eða ferðasölum. Hingað til hefur Flugmálastjórn einungis veitt álit sitt vegna kvartana neytenda sem ekki hefur verið bindandi fyrir veitanda þjónustunnar. Með ákvæðinu er leitast við að bæta úr þessu og styrkja úrræði neytenda til að sækja rétt sinn með því að Flugmálastjórn verður nú heimilt að taka bindandi ákvörðun sem fylgja má eftir með stjórnvaldsviðurlögum.

Virðulegi forseti. Í 15. gr. er Flugmálastjórn Íslands veitt heimild til að taka ákvörðun um álagningu stjórnvaldssektar á eftirlitsskyldan aðila að tillögu Eftirlitsstofnunar EFTA eða Flugöryggisstofnunar Evrópu enda sé sú starfsemi sem tillaga um sekt grundvallast á óheimil samkvæmt íslenskum lögum. Ákvæðið er tilkomið vegna skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum og á rætur sínar að rekja til reglugerðar um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu en þar er gert ráð fyrir að stofnununum sé heimilt að leggja sektir á eftirlitsskylda aðila. Talið er að EES-samningurinn veiti þeim ekki heimild til að leggja sektir á eftirlitsskylda aðila á Íslandi og því sé nauðsynlegt að íslenskt stjórnvald komi formlega að því ferli og sé sá aðili sem leggi sektirnar á enda hafi það til þess að öðru leyti gildar heimildir.

Að lokum eru í 16. gr. heimildir Flugmálastjórnar til ákvarðanatöku á starfssviði sínu styrktar og áréttað að ákvarðanir stofnunarinnar hafi almennt gildi en geti einnig haft sérstakt gildi sé þeim beint að ákveðnum hópum eða einstökum aðilum. Einnig er birtingu ákvarðana á heimasíðu stofnunarinnar veitt gildi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.