138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú fer að ljúka þeirri miklu þrautagöngu sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hafa farið með þetta svokallaða strandveiðifrumvarp. Við munum að frumvarpið var upphaflega lagt fram sem einhvers konar hugmynd af hálfu þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, og var ætlunin að taka allan byggðakvótann og setja inn í þetta og leysa þannig meintan ágreining um byggðakvótann í landinu. Ekki var kjarkur til að ganga svo langt heldur var ákveðið þegar frumvarpið var lagt fram að taka helming byggðakvótans til ráðstöfunar í strandveiðarnar. Við mörg hver gagnrýndum þetta harðlega í fyrra og sögðum að afleiðingarnar yrðu slæmar eins og raunin varð. Það má þó segja hæstv. ráðherra til hróss að hann hefur tekið mark á viðvörunum okkar þó seint væri með því frumvarpi sem nú er verið að hefja 3. umr. um. Horfið hefur verið frá þessu algjörlega og ákveðið að á þessu fiskveiðiári verði aflakvótinn aukinn um 6.000 tonn, væntanlega um 5.000 tonn í þorski eða þar um bil, til þess að standa undir strandveiðunum.

Í fyrra var ákveðið að þessar veiðar færu fram á fjórum afmörkuðum svæðum sem voru skilgreind í lögunum. Við vöruðum við því að þessi svæðaskipting gæti ekki gengið upp, annaðhvort yrðu menn að hafa eitt svæði eða hafa þau mun fleiri til þess að tryggja áhrif strandveiðanna á byggðirnar. Auðvitað kom í ljós að svæðaskiptingin gekk ekki upp. Það hlýtur að verða óumdeilt af fenginni reynslu í fyrra. Hún var sú að á einhverjum svæðum, til að mynda A-svæðinu, veiddu menn upp í heimildir sínar á fáeinum dögum. Á öðrum svæðum dugðu þessar heimildir miklu lengur þannig að augljóst var að aflaskiptingin milli svæðanna var röng. Hún byggðist á úthlutun byggðakvótans eins og sú úthlutun hafði verið árið á undan. Nú er hins vegar horfið frá því að nýta byggðakvótann. Eins og við í minni hlutanum áréttuðum í 2. umr. þessa máls þá hnigu auðvitað öll rök að því að hverfa frá svæðaskiptingunni í ljósi þess að nú er ekki stuðst við úthlutaðan byggðakvóta. Því miður virðist það ekki ætla að verða raunin. Meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefur ekki kosið að bregðast við þessu með þeim hætti sem við hefðum kosið og ber auðvitað ábyrgð á þeirri svæðaskiptingu sem verður niðurstaða um.

Það er líka mjög ámælisvert að okkar mati að skipa málunum þannig að hafa þetta galopna heimild að mestu leyti. Það er ætlunin að þetta verði fjögur svæði en þau eru ekkert nánar skilgreind og geta þess vegna verið lítil frímerki á þremur stöðum og restin af hafsvæðinu síðan fjórða svæðið. Það gæti tæknilega verið þannig þó að ég eigi nú kannski ekki von á að það verði niðurstaðan. Fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins greindu okkur frá því að ætlunin væri að þessi svæði yrðu mjög svipuð því sem þau voru í fyrra, kannski yrðu einhverjar minni háttar breytingar og aflamagnið sem færi inn á þessi svæði yrði mjög svipað og í fyrra. Það er auðvitað hörmulegt ef svo er vegna þess að reynslan sem menn þóttust ætla að læra af segir okkur að þessi svæðaskipting og aflaskipting gangi ekki upp. Það er heldur ekki gott að afgreiða lagafrumvarp eins og þetta með svona galopinni heimild. Auðvitað á löggjafarþingið að hafa skoðun á því a.m.k. í meginatriðum hvernig þessi svæðaskipting á að líta út.

Við höfum kallað eftir því, bæði í umræðunni og eins í nefndinni, að þessi mál yrðu skýrð fyrir okkur nákvæmlega áður en málið yrði afgreitt. Það er auðvitað — ég segi nú ekki sjálfsögð kurteisi en bara eðlileg stjórnsýsla að það sé gert. Samkvæmt gildistökuákvæðinu er gert ráð fyrir að veiðarnar geti hafist núna 1. maí. Þess vegna hefði maður ímyndað sér að ráðuneytið hefði haft á reiðum höndum svör við því hvernig þessi svæðaskipting yrði nákvæmlega, hver aflaskiptingin yrði o.s.frv. Svarið sem við höfum fengið er að upplýsingarnar liggi ekki nákvæmlega fyrir en það muni taka um hálfan mánuð frá því lögin eru samþykkt þangað til hægt verður að hefja veiðarnar. Miðað við þetta má ætla að veiðarnar gætu hafist í kringum 15. maí að samþykktum þessum lögum. Það er auðvitað ekki við það búandi í sjálfu sér að ganga frá málinu með þessum hætti en við það verður ekki ráðið. Það er niðurstaða meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að fara með málið svona vanbúið inn í þingið án þessara nauðsynlegu upplýsinga.

Af ýmsum ástæðum hefði verið eðlilegast að hafa eingöngu eitt veiðisvæði. Við bentum á að í fyrra stunduðu menn að skrá bátana sína á þeim veiðisvæðum þar sem þeir töldu mestu veiðivonina. Það er út af fyrir sig ekkert ámælisvert við það, það var bara þannig. Þess vegna hefur þessi svæðaskipting ekki mikinn tilgang í rauninni. Menn mundu einfaldlega gera út frá þeim verstöðvum þar sem þeir helst ætluðu að þeir næðu árangri ef svæðaskiptingin yrði engin.

Ég hef líka bent á til samkomulags og sátta að það mætti hugsa það þannig að á því fiskveiðiári sem núna er hafið og tímabilinu, sem strandveiðunum er ætlað að standa yfir á þessu fiskveiðiári, væri eðlilegt að hafa eitt svæði, búa til nýja viðmiðun á grundvelli þeirrar veiði og búa síðan til svæði og úthluta afla inn á þau svæði á grundvelli þeirrar viðmiðunar sem fengist við veiðarnar á þessu ári. Það væri alla vega einhver rökhyggja í því. Það eru auðvitað engin rök að baki þeirri fyrirætlun að úthluta afla inn á þessi svæði á grundvelli byggðakvóta sem kemur þessu máli bókstaflega ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Þess vegna, virðulegi forseti, höfum við í minni hlutanum flutt breytingartillögu um að hverfa algjörlega frá svæðaskiptingunni. Við teljum hins vegar eðlilegt að hafa skiptingu á milli mánaða. Það mundi stuðla frekar að því að fiskvinnslan á stöðunum gæti sem best nýtt aflann og ekki yrðu nánast kappróðrar fyrstu dagana á veiðitímabilinu. Ég tel ekkert óeðlilegt að hafa einhverjar svona skiptingar eftir tímabili á grundvelli mánaða eins og gert er ráð fyrir. Það er okkar tillaga. Það er út af fyrir sig sjálfsagt þó að vitlaust sé að hafa þessi fjögur svæði eins og boðað er í frumvarpinu.

Ég vil að gefnu tilefni líka segja að ég tel skynsamlegt eins og lagt er til af hálfu meiri hlutans að hafa þessa þrjá banndaga. Það eru líka rök út frá fiskvinnslu sem hníga að því, fyrir utan annað sem mætti tína til. Við vitum að þessi afli, 6.000 tonn, mun ekki klárast á allt of mörgum dögum í hverjum mánuði þannig að það er að mínu mati alveg skaðlaust að hafa þessa þrjá banndaga yfir helgi.

Annað sem ég vil nefna og kemur fram í áliti okkar í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er að úr því menn fara inn í fiskveiðistjórnarkerfi sem er þetta nýja banndagafyrirkomulag sem menn hafa kallað strandveiðar þá er eðlilegt fyrir þá sem stunda slíka útgerð, útgerðarmenn minni handfærabáta sem sækja í hinn aukna kvóta sem strandveiðarnar fela sannarlega í sér á þessu ári, að reynt verði að hafa sveigjanleika og hagkvæmni að leiðarljósi. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að njörva menn niður. Hér er um að ræða pott upp á 6.000 tonn. Það er ekki spurning um hvort veitt sé meira eða minna, það eru bara 6.000 tonn sem eru til skiptanna. Það getur staðið þannig á að betur henti ýmsum bátum að fara á strandveiðarnar á fyrri hluta tímabilsins og hætta þeim einhvern tímann á tímabilinu til þess að stunda aðrar veiðar. Ég nefndi dæmi um báta sem stunda skötuselsveiðar seinni hluta sumars og vildu kannski verða sér úti um viðbótarkvóta sem er eini möguleikinn með því að fara á strandveiðar. Það er alveg óskiljanlegt hvers vegna ekki er hægt að hafa þetta kerfi sæmilega þjált þannig að menn geti líka farið út úr því. Það má ekki gleyma að með því að gera það er verið að opna möguleika á að létta á pressunni í kerfinu. Það blasir við öllum sem velta þessu fyrir sér að mikil ásókn verður í þetta. Mikill kvótaskortur er til staðar nú þegar eins og allir vita og bókstaflega búið að æpa eftir auknum aflaheimildum. Hér er boðið upp á auknar aflaheimildir og auðvitað hljóta menn eins og þeir mögulega geta að nýta sér möguleikann á að fá þann viðbótarkvóta sem er veittur í gegnum strandveiðarnar. Menn geta hafið strandveiðar hvenær sem er og þess vegna eru það bara sanngirnisrök og eiginlega rökrétt að menn geti líka lokið þeim hvenær sem er og hafið aðrar veiðar í samræmi við það sem þeim hentar á þeim tíma.

Þriðja atriðið sem er nauðsynlegt að nefna í þessu sambandi, virðulegi forseti, er að við í minni hlutanum höfum flutt breytingartillögu þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Frá útgáfudegi strandveiðileyfis er fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Þó getur fiskveiðiskip tilkynnt Fiskistofu að það hyggist hætta strandveiðum áður en strandveiðitímabilinu lýkur og taka á ný upp veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Nýti fiskveiðiskip þessa heimild getur það ekki hafið strandveiðar á ný á sama strandveiðitímabili. “

Með öðrum orðum erum við einfaldlega að segja að menn geti sótt um leyfi til þess að hefja strandveiðar en líka óskað leyfis til þess að fara út úr þessu kerfi einhvern tímann síðar á tímabilinu. Við opnum hins vegar ekki á að menn fari síðan aftur inn í það. Þetta er að okkar mati rökrétt og eðlilegt og í anda þess að menn reyni að fá sem mest verðmæti út úr fiskveiðunum á tímabilinu. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að loka menn inni vegna þess að það hefur engin áhrif nema síður sé á þá sem eru fyrir í þessum strandveiðipotti. Þetta getur þvert á móti létt á pressunni í þeim efnum.

Þriðja atriðið sem hefur nokkuð verið rætt og minni hlutinn og fleiri hv. þingmenn gerðu að umtalsefni við 2. umr. er spurningin um hvernig eigi að fara með aflakvótann sem tekinn er frá og leiðir til þess á þessu fiskveiðiári að afli í þorski aukist um kannski 5.000 tonn og alls sé þá um að ræða kvótaaukningu í kringum 6.000 tonn. Spurningin er þessi: Á að draga þetta frá áður en kvóta er úthlutað til aflamarksbáta og krókaflamarksbáta?

Í gildandi fiskveiðilögum er gert ráð fyrir því að áður en kemur til úthlutunar kvóta er dregið frá vegna skel- og rækjubáta, það er dregið frá vegna byggðakvóta og vegna línuívilnunar. Nú er gert ráð fyrir í því frumvarpi sem fyrir liggur og Alþingi tók afstöðu til núna fyrr í vikunni að á næsta fiskveiðiári verði þessi 6.000 tonna aflaheimild dregin frá áður en til úthlutunar kemur. Má ætla að það séu kannski 5.000 tonn sem verða dregin frá úthlutuðum kvóta á næsta fiskveiðiári. Ég hef þegar farið yfir hvaða áhrif það getur haft miðað við gefnar forsendur í áliti Hafrannsóknarstofnunar sem hún kynnti 16. apríl síðastliðinn. Flest virðist benda til að þetta geti valdið því að í stað þess að aflaheimildir aflamarksbáta og krókaflamarksbáta aukist eins og flestir höfðu gert ráð fyrir geti það leitt til þess að aflaheimildirnar í kvótakerfinu og krókaflamarkskerfinu, þ.e. smábátakerfinu og hinu almenna aflamarki, hreinlega dragist saman á næsta fiskveiðiári.

Nú hefur meiri hluti Alþingis sem sagt komist að þeirri niðurstöðu að þessum aflaheimildum verði ekki varanlega haldið utan við áður en kemur til úthlutunar aflamarks- og krókaflamarksbáta þannig að afstaða meiri hlutans liggur fyrir. Þess vegna höfum við í minni hlutanum lagt til að ganga svona hálft skref í átt til þess að halda þessum aflaheimildum utan við með því að leggja til breytingartillögu sem felur í sér að á næsta fiskveiðiári og því þar næsta verði þessar aflaheimildir ekki dregnar frá úthlutuðum aflaheimildum áður en þeim er úthlutað til krókaflamarks- og aflamarksbáta, þ.e. að þetta ákvæði laganna muni ekki taka gildi fyrr en á fiskveiðiárinu 2012/2013. Ég trúi því að um þetta mál geti tekist meiri samstaða. Það er vilji okkar sem stöndum að þessum breytingum.

Virðulegi forseti. Í meðförum þingsins hafa átt sér stað breytingar í samræmi við ýmislegt af því sem minni hlutinn hefur bent á. Það er í sjálfsögðu ekki útséð um hvaða frekari breytingar verða gerðar við 3. umr. og mun það skýrast þegar um þetta verður greitt atkvæði á morgun væntanlega. Þessar miklu breytingar undirstrika mjög vel nauðsyn þess að vandað sé til verka þegar lagt er fram lagafrumvarp og á það sérstaklega við um frumvörp sem fela í sér svo mikil nýmæli. Við teljum að mikill skortur hafi verið á því við upphaflega löggjöf í fyrra og síðan aftur núna, þó töluðu menn um í fyrra að læra af reynslunni. Ýmislegt hafa menn væntanlega lært eins og við nefndum en ekki nóg þó að smám saman séu menn farnir að taka tillit til ýmissa sjónarmiða sem við höfum sett fram. Það er nokkuð dýrkeypt reynsla að stunda svona tilraunalagasetningu á mikilvægu lagasviði. Við hvöttum til að vandað yrði til verksins áður en lögin voru sett í fyrra í stað þess að fara í svona tilraunastarfsemi en á það var ekki hlustað. Sum þessara mistaka verða auðvitað ekki aftur tekin.