138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum komin í 3. umr. um svokallað strandveiðifrumvarp. Það er náttúrlega búið að ræða málið í þaula og einnig má halda því fram að málið hafi tekið talsverðum stakkaskiptum frá því að það kom fyrst inn, sérstaklega frá því að bráðabirgðaákvæðið kom inn síðastliðið sumar og enn við 3. umr. er hér talsvert af breytingartillögum, bæði frá meiri hlutanum, sem við í minni hlutanum höfum að sumu leyti talað fyrir, og eins eru hér tillögur frá okkur í minni hlutanum sem ég hef grun um að eigi hljómgrunn í þingsal. Hægt væri að halda því fram að málið hafi í sjálfu sér ekki verið nægilega vel undirbúið í upphafi og ég hef nú haldið því fram í umræðum um frumvörp sem komið hafa frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ráðuneyti hans að á þeim sé sá verulegi ágalli að þar sé talsvert mikið opið og ráðherra gefnar stórar heimildir. Þetta frumvarp er, eins og fram hefur komið áður bæði í mínu máli og annarra, engin undantekning frá því, síður en svo. Hér er margt skilið eftir ráðherranum til túlkunar og hreinlega að bregðast við eftir „behag“ gæti maður haldið fram.

Eins og fram hefur komið skrifa ég undir minnihlutaálitið og get þess vegna tekið undir flest eða allt sem kom fram í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Einnig vil ég taka undir það sem hér kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um þá furðulegu staðreynd að í dag er 29. apríl og lögin áttu að taka gildi 1. maí og veiðarnar að hefjast þá, þ.e. að undangenginni eðlilegri auglýsingu og þeim tíma sem það tekur, kannski 10–12 dagar. Síðast í gær fórum við fram á það við ráðuneytið að fá upplýsingar um með hvaða hætti ætti að svæðaskipta og hvernig þessum málum yrði háttað, bæði svæðaskiptingin og eins skiptingin innan mánaða, þ.e. þær reglugerðir sem ráðherra hlýtur að leggja fram við upphaf þessara veiða. Og enn fáum við ekkert svar. Það stendur þó í lögunum að þetta sé í höndum ráðherra og veiðarnar verða örugglega hafnar eftir 14 daga að öllum líkindum. Þetta er auðvitað með miklum ólíkindum og hreint ekki góður blær yfir þessu, þingið á ekki að setja lög með þessum hætti. En af því að ég hef talað dálítið um að það sé mikill munur á stjórnsýslustigum, þ.e. ríkisvaldinu annars vegar og sveitarfélögunum hins vegar, þá hefur það gjarnan verið þannig í lagasetningu á síðustu árum þegar ríkisvaldið er að setja sjálfu sér ramma, sérstaklega ráðuneyti og ráðherrar, að það liggur við að þar sé sagt: lög þessi fjalla um þetta og með yfirstjórn þessa máls fer ráðherra og hann setur sér síðan reglugerð um það. Ef málið er hins vegar sent til sveitarfélaganna til umsýslu eða hvað þar eigi að fara fram eða til einhvers annars aðila, er það hreinlega reifað niður í hvert einasta smáatriði og skilgreind hver einasta hreyfing og hvernig þetta skuli vera í löngu máli og ekkert skilið eftir. Þess vegna er það alveg í hróplegu ósamræmi hvernig þessi lagasetning er og þetta frumvarp er svo sannarlega gegnsýrt af þeim hugsunarhætti.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en ég ætla þó að koma aðeins inn á það að mjög mikilvægt er að þau skilaboð séu send út frá sjávarútvegsráðuneytinu og hæstv. ráðherra hvert framhaldið eigi að verða á þessum veiðum. Við framsóknarmenn töluðum strax síðastliðið sumar um að strandveiðar ættu fyllilega rétt á sér og ættu mögulegan sess í þessu kerfi og það væri ákveðið réttlætismál að menn gætu róið til fiskjar og slíkt. En við vöruðum við og sérstaklega hef ég varað við því hér í ræðustól að þetta sé ný innkoma, ný atvinnugrein sem menn eru að byggja upp og áhættan sé fólgin í því að væntingarnar sem við skynjuðum strax síðastliðið sumar, þegar til að mynda var talað um að 200–300 bátar færu í þessar veiðar en þeir urðu 545, minnir mig, sem lönduðu afla og 595 sem fengu leyfi og nú er jafnvel talið að þetta verði enn fleiri bátar, væntingarnar séu gríðarlega miklar um að þarna sé verið að byggja undir hugsanlega nýjan kvóta, nýja reynslu, veiðireynslu, og þarna megi búast við aukningu á næstu árum. Það þarf að koma skýrt fram ef það er fyrst og fremst meining þessa frumvarps. Ég hefði gjarnan viljað að allir gætu róið til fiskjar, en hugsanlega væri magn á dag allt of hátt og mætti alveg deila um það hvort það hafi átt að vera 800 kíló í fyrra, 650 núna eða eitthvað allt annað og miklu lægra.

Það mætti líka velta fyrir sér banndögunum og sitthverju fleira. En stjórnarmeirihlutinn velur að hafa þetta sem opnun, sem nýliðun, og satt best að segja er það svo að þetta er einasta kvótaaukningin sem fram fer og þrátt fyrir yfirlýsingar um að menn ætli að halda sig við ráðleggingar Hafró er þetta umframaukning á þessu ári og við í minni hlutanum teljum að það væri þá eðlilegt að þetta yrði með sama hætti á næsta fiskveiðiári og þarnæsta. Þá gætu menn metið það af reynslunni hvort þau 6.000 tonn sem eru tekin út fyrir sviga dygðu eða hvort menn ættu að skipta þessu upp með einhverjum öðrum hætti, því að sannast sagna hafa menn auðvitað lært eitthvað af reynslunni frá síðastliðnu sumri, en ef aukningin í bátafjölda verður með sambærilegum hætti og sama klúðrið með svæðaskiptinguna eins og á síðastliðnu sumri læra menn auðvitað seint og hægt. Því leggjum við fram þessa breytingartillögu sem ég hef grun um að ýmsir þingmenn hafi hug á að styðja. Tel ég að það mundi ekki raska ráðgjöf Hafró að taka þessi 6.000 tonn, úr því að það er í lagi á þessu ári hlýtur það að vera í lagi á næsta ári og þarnæsta ári líka og gefa þar með út að það sé föst tala á þessum árum. En í framtíðinni væri kannski eðlilegra, ef strandveiðarnar festa sig í sessi og verða hluti af fiskveiðikerfi okkar, að þetta verði eitthvert hlutfall en ekki einhver ákveðin tala, þannig að allir mundu njóta aukningar og á sama hátt skerðingar ef aflamark, hrygningarstofn og veiðistofn minnkar eða vex sem við auðvitað vonumst til að verði á næstu árum.

Ég ætlaði kannski að nefna eitt enn fyrir utan þessa kvótaaukningu og það er skiptingin á svæði, en af því að menn hafa verið að tala um þeir vilji læra af reynslunni og síðasta ár með svæðaskiptingu reyndist vera hreinasta klúður er merkilegt að þær yfirlýsingar sem við þó höfum getað dregið út úr ráðuneytinu eru að svæðaskiptingin í ár verði með sambærilegum eða svipuðum hætti, svo menn virðast ekki hafa lært mikið af því. Hefði ekki verið eðlilegra að hafa landið allt eitt svæði? Sjálfur hafði ég velt því upp til þess líka að átta sig á því, af því að veiðarnar hefjast við Suðurland og færa sig síðan vestur um og norður yfir, hvort ekki hefði verið eðlilegt líka að skipta magninu jafnt á milli mánaða með einhverri heimild til að flytja á milli mánaða ef ekki næðist að veiða á einu svæðinu. Ekki hefur fengist hljómgrunnur fyrir því. Hins vegar ræddum við um hvort ekki væri skynsamlegt að hafa sunnudaginn líka sem banndag og stjórnarmeirihlutinn hefur tekið það upp sem breytingartillögu hjá sér og er það held ég til mikilla bóta.

Margt er sem sagt sérkennilegt enn þá í þessu máli og óljóst og væri óskandi að ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar og hæstv. ráðherra þess færu að vinna frumvörp með skýrari hætti og gengju hreinna fram og það kæmi skýrar fram hvert sé markmið hvers frumvarps og minna skilið eftir til að túlka í ráðuneytinu og í huga ráðherrans, því að það er auðvitað ótti við það. Og það höfum við þó lært af rannsóknarskýrslu þingsins að rammalöggjöf sem við höfum ástundað á síðustu árum og var fyrst tekin upp í sambandi við fjárlög, ég held að talað hafi verið um nýskipan í ríkisfjármálum, að þau ættu að vera svona rammafjárlög sem síðan smituðust yfir í almenna löggjöf. Það er eitthvað sem við hefðum átt að færa okkur frá og ættum að hafa lært af að voru mistök að skilja eftir allar túlkanir og heimildir í ráðuneytum, hjá embættismönnum og hjá ráðherra. Það er mikilvægara að við göngum hér skýrar til verks og ég vonast til að það lærum við þó af þessu að það þurfi að hafa skýrari lagatexta en við séum ekki tveimur dögum áður en lögin taka gildi að samþykkja eitthvað sem ráðherrann hlýtur að leggja fram eftir tvo daga en vill ekki eða getur ekki upplýst þingið um.