138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Enn ræðum við strandveiðar. Það sér nú fyrir endann á þessu máli, þ.e. það verður væntanlega atkvæðagreiðsla um málið á morgun. Það er mikið búið tala um þetta mál og upp úr stendur að farið er af stað með breytingar sem eru illa ígrundaðar og vanreifaðar af hálfu ráðuneytisins og ráðherra og því er eðlilegt að um það séu skiptar skoðanir.

Varðandi þessa útgáfu og þær breytingar sem verið er að gera á frumvarpinu, að reyna að klastra í það og gera það skárra en það var, þá held ég að það sem komið hefur fram sé að mestu til bóta. Ég verð alla vega að segja það varðandi þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til, að bæta við sunnudeginum í fyrstu breytingartillögunni, að ég styð það, ég held að það sé til bóta.

Stóri gallinn við frumvarpið er að mínu viti sá að sú hugsun sem eflaust var ætlunin að ná með frumvarpinu næst ekki, þ.e. ég hygg að ráðherra hafi ætlað sér að ná einhvers konar auknu réttlæti sem hann telur vanta í fiskveiðistjórnarkerfið en fer mjög langa leið til að reyna að ná því og nær því ekki.

Það sem stingur mig mest í þessu er að eins og frumvarpið er lagt upp er það stefna ráðherra að halda því til streitu að vera með strandveiðar á sumrin og þá ætlar hann sér að færa atvinnuréttindi frá einum hópi til annars. Út á það gengur frumvarpið. Samkvæmt frumvarpinu er verið að búa til nýja atvinnugrein í sjávarútvegskerfinu á sama tíma og verið er að reyna að ná einhvers konar framtíðarsýn og sátt um það kerfi, og ég tel að undir það síðasta hafi gengið ágætlega í þeirri nefnd sem fjallar um þau mál. Ég vil því leyfa mér að vona, frú forseti, að ekki verði fleiri sendingar af þessu tagi af hálfu ráðherra meðan við erum að vinna í því.

Þegar ég segi að verið sé að færa atvinnuréttindi frá einum hópi til annars er það sú hugsun sem er fyrir fiskveiðiárið 2010/2011 og kemur fram í frumvarpinu, þ.e. að ekki á að auka aflaheimildir heldur að úthluta fyrst til ákveðins hóps, þessa nýja hóps, og síðan til hinna. Nær væri að halda áfram á þeirri braut sem sem betur fer er farin á þessu ári, þ.e. að bæta við aflaheimildum og það eru forsendur til þess eins og ég hef bent á. Það er vitanlega skelfilegt til þess að hugsa ekki síst í ljósi þess að 92 eða 94% af þeim sem eru í aflamarkskerfinu eða krókaaflamarkskerfi í dag hafa keypt aflaheimildir sínar, að þá sé verið að taka, eins og kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, allt að 8,6% af aflaheimildum sumra og færa yfir í alls konar bætur eða yfir í þetta kerfi. Það eru bara sumir sem hafa verið að kaupa sér aflaheimildir og stunda þessar atvinnuveiðar sem lenda í slíku.

Ég tek líka undir þau orð sem hér hafa fallið um þau undarlegu „ef“ sem skilin eru eftir í frumvarpinu, hve mörg verða svæðin, hvernig verður úthlutað og slíkt. Ég held að enginn geri sér grein fyrir því og það veit í rauninni enginn. Það hefur enginn hugmynd um hversu margir muni fara á strandveiðar frá og með 1. maí eða frá því að lögin hafa verið staðfest. Það veit enginn og við vitum því ekki hve margir þeir verða og hversu mikinn afla hver getur veitt.

Það er ótrúlegt og mjög ótrúverðugt að ætla þinginu að trúa því að ekkert sé búið að hugsa eða útfæra þá reglugerð sem verður sett í framhaldinu, hvort sem snýr að svæðaskiptingu eða öðru. Ég leyfi mér að fullyrða að það geti bara ekki verið að ekki sé búið að útfæra reglugerðina. Hafi ég rétt fyrir mér í því eru þau vinnubrögð sem hér hafa verið gagnrýnd varðandi framkvæmdarvaldið og Alþingi aldeilis ekki að breytast.

Í breytingartillögu minni hlutans er kveðið á um að skipta aflaheimildum niður á mánuði og tek ég undir það. Þá er breyting varðandi þá sem hugsanlega vilja fara út úr kerfinu og veiða samkvæmt öðrum leyfum sem þeir kunna að hafa og er það vitanlega til bóta. Síðan er breytingartillaga 2 um að 2. gr. frumvarpsins taki gildi á fiskveiðiárinu 2012/2013, þ.e. að ekki verði úthlutað fyrst, það er í raun og veru verið að leggja til kvótaaukningu inn í strandveiðikerfið 2010/2011 og 2011/2012. Undir þetta get ég tekið og mun að sjálfsögðu samþykkja þessa breytingartillögu. Ég hefði þó haldið að það ætti ekki endilega að vera inni að nefna hvenær þetta á að taka gildi, heldur ætti eingöngu að segja að þær aflaheimildir sem verður úthlutað í þetta kerfi verða viðbætur. Það á ekki að færa réttindi frá einum til annars, hvenær sem það er, en þetta er til mikilla bóta og ég mun að sjálfsögðu styðja það.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið að sinni. Ég hef ákveðinn skilning á hugmyndafræðinni um strandveiðarnar. Ég held hins vegar að það hafi mistekist á síðasta fiskveiðiári að koma þeim í framkvæmd með skynsamlegum hætti og það mistekst líka núna. Það er rangt að búa til nýjan atvinnuveg ef menn sjá ekki hvernig á að láta hann þróast, og ekki síst ef hann er á kostnað annarra.