138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:02]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sé horft til baka þá er þróunin frá árinu 1984 og til dagsins í dag samfelld samþjöppun aflaheimilda. Margar sorgarsögur eru á landsbyggðinni vegna samþjöppunarinnar þar sem grafið hefur verið undan rótum samfélaga og miklum mannauði og verðmætum sem þar liggja. Menn ættu því að skoða þetta í heild sinni. Hvernig hafa t.d. uppsjávarveiðarnar þróast? Örfáar útgerðir eru í þeim. Það var reynt að brjóta blað í því við úthlutun makríls þannig að fleiri kæmust að.

Grunnhugsunin er að tryggja alla flóruna. Ég hygg að þetta frumvarp skapi talsvert meiri atvinnu — og veitir ekki af — en þá sem það dregur úr á öðrum sviðum. Ég trúi ekki þeim prósentutölum sem hér eru nefndar. Ég tel þetta vera lítilræði og þetta er ekki aðför að stóru útgerðunum.

Ég get hins vegar tekið undir með hv. þingmanni að umræðan um sjávarútvegsmál hefur verið mjög erfið, hún hefur ekki verið málefnaleg og menn hafa verið í skotgröfum. Það hefur hamlað því að við gætum gert þær umbætur á fiskveiðistjórninni sem þörf er á og þjóðin kallar eftir. Ef eitthvað gæti gerst sem mundi hjálpa umræðunni væri það að menn kæmu upp úr skotgröfunum og töluðu málefnalega saman.

Mér er enn minnisstæð umræðan um skötuselinn og þær auglýsingar sem þá birtust í blöðum um það að ég og minn flokkur og fleiri stæðum að því að leggja landsbyggðina í rúst. Ég gat í engu svarað þessum flennistóru auglýsingum því ég hafði ekki efni á nema smáauglýsingum.