138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:07]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, aðstoðarmaður hans og starfsmenn ráðuneytisins hafa lýst því yfir að þeir muni fara svipaða leið og farin var í fyrra. Vegna þess að byggðapotturinn var tekinn inn í þetta var við ákvörðun um afla inn á þessi svæði í fyrra deilt miðað við það hvernig byggðapotturinn hafði deilst. Á bak við úthlutun á byggðakvótanum lágu væntanlega byggðasjónarmið og hvaða svæði höfðu farið verst og það sjónarmið var aftur til grundvallar við úthlutun í fyrra og svipuð byggðasjónarmið verða á bak við þessa úthlutun.

Ég verð að segja aftur að reynslan í fyrra var lítil. Það má vel vera að upp komi vankantar á þessu kerfi í sumar og hv. þingmaður hefur lýst því að menn séu að flytja báta og annað slíkt og það verður að skoða hvernig það verður. Hins vegar var, held ég, upplýst á fundi nefndarinnar í fyrradag að bæði yrði flæði á milli mánaða, þ.e. að ónýttur fiskur í einum mánuði mundi þá flæða inn í annan, og flæði á milli svæða ef í ljós kemur á síðari hluta strandveiðitímabilsins, segjum í lok júlí, að vannýttar úthlutanir séu á einu svæði. Ég spurði sérstaklega að þessu og áréttaði. En það verða ekki miklar breytingar. Þó nefndi ráðherra það að svæðin gætu orðið þrjú en ekki fjögur.

Reynsla mín af þessum málum er sú að ef maður nefnir eitthvað og fær ánægju eins hóps sprettur óánægja annarra upp jafnharðan. Skerðingin er til staðar ef þetta er hugsað með þessum hætti og aldrei verður gert þannig að öllum líki í þessu kerfi en ég met hagsmunina af strandveiðunum mun meiri en gallana.