138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:11]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég svaraði ekki seinni spurningu hv. þingmanns, mér vannst ekki tími til þess. Grundvallarskoðun mín er sú að menn eigi að sitja við sama borð. Ég er mikill unnandi og stuðningsmaður jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þannig að alltaf þegar sagt er að mönnum sé mismunað fer ég svolítið í kross. Auðvitað mun ég taka afstöðu til þessa út frá þeirri megin- og grundvallarhugsun minni.

Ég vil ítreka það að reynslan í fyrra skar ekki endanlega úr um þetta kerfi. Þó var hún talin góð af vísindamönnum sem ég treysti við Háskólasetur Vestfjarða. Ég mun mælast til þess að slík rannsókn verði endurtekin og eflaust mun ýmislegt koma upp í þeim efnum. Nú höfum við fjóra mánuði í staðinn fyrir einn og hálfan og stundum veiðarnar fjóra daga vikunnar í staðinn fyrir fimm, það mun dreifa veiðinni og gera þetta auðveldara. En ég er alveg viss um að annmarkar munu koma upp vegna strandveiðanna en við munum sníða þá af. Sníða af, segi ég, vegna þess að strandveiðikerfið er komið til að vera.

Hvernig úthlutanir til þessa kerfis eða annarra verða finnst mér ráðast algjörlega af ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Ég get ekki talað fyrir sáttanefndina en þetta ræðst líka af niðurstöðu hennar í þessu máli, þannig að ég vil segja sem minnst um þetta fyrr en niðurstaða liggur fyrir hjá sáttanefndinni.