138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

málskotsréttur forseta Íslands.

[12:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get trúað hv. þingmanni fyrir því að ef það er rétt sem hann segir, að hæstv. forsætisráðherra hafi tekið mig og sett á kné sér og siðað mig til, þá er það ekki í fyrsta skiptið og örugglega ekki í síðasta skiptið. Ég uni því agavaldi ákaflega vel. Ég sat á sínum tíma í stjórnarskrárnefnd þar sem urðu miklar umræður um þetta og ég hafði ákaflega afdráttarlausar skoðanir á þessu máli. Ég taldi að synjunarvaldið væri eins konar neyðarhemill sem hægt væri að grípa í fyrir hönd þjóðarinnar þegar ríkisstjórn keyrði hugsanlega út af að mati þjóðarinnar. Ég segi það alveg skýrt og skorinort að þessi mál hafa ekki verið rædd í ríkisstjórninni. Ég ímynda mér sömuleiðis að ef og þegar kemur til þess að menn grípi til þess að fara að breyta stjórnarskránni, eins og ýmsir fræðimenn hafa bent á, síðast á ráðstefnu í gær í kjölfar rannsóknarnefndarskýrslu, þá komi þær tillögur þaðan. En bara til að hugga hv. þingmann og sannfæra hann um að lítið hefur breyst í hugarheimi þess karls sem hér stendur, eru skoðanir mínar á þessu máli óbreyttar.