138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

málskotsréttur forseta Íslands.

[12:08]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er gott að vita til þess að hæstv. ráðherra kveinkar sér ekki undan því að vera skammaður af yfirboðurum sínum og tekur slíkum skömmum vel. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin, að hann hafi ekki skipt um skoðun varðandi það hvort fella eigi brott málskotsrétt eða synjunarvald forseta Íslands skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar. Það má hæstv. utanríkisráðherra eiga að hann er samkvæmur sjálfum sér hvað það varðar.

En það er hins vegar mjög athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir á blaðamannafundi á þriðjudaginn að hún vildi afnema synjunarvald forseta Íslands. Nú hefur komið í ljós að það er ágreiningur eða klofningur innan ríkisstjórnarinnar um það hvernig fara eigi með synjunarvald og 26. gr. stjórnarskrárinnar til framtíðar. Það liggur bara fyrir. (Forseti hringir.) Það er mikilvægt að ríkisstjórnin marki sér einhverja stefnu í þessu máli og sömuleiðis stefnu varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar (Forseti hringir.) til framtíðar. Því miður hefur hún ekki farið fram.