138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

aðildarumsókn að ESB og staða Grikkja.

[12:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Alþingi samþykkti að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu án skilyrða síðasta sumar. Við vitum öll að staðan í Suður-Evrópu er afar slæm og staða Grikklands er svo slæm að það riðar á barmi gjaldþrots. Spánn stendur illa líka og er talið að vandræði Spánverja séu fimm sinnum meiri en vandræði Grikkja. Önnur ríki hafa verið nefnd þarna eins og Portúgal og Írland.

Talið er að vandræði Grikkja nú geti leitt til þess að Grikkir yfirgefi Evrópusvæðið, verði jafnvel neyddir til að yfirgefa evrusvæðið. En í umræðum í sumar þegar Evrópusambandið var á dagskrá var ein helsta ástæðan fyrir því að við yrðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu einmitt sú að við þyrftum nýjan gjaldmiðil og taldi Samfylkingin að evran væri sá gjaldmiðill sem við þyrftum að hafa. Það var gulrótin í umsókninni í sumar. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra í ljósi þeirra atburða sem nú eiga sér stað í Evrópu: Telur hæstv. utanríkisráðherra að sú ákvörðun hafi verið rétt að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu, því að svo virðist vera að Evrópusambandið sé á leiðinni í allsherjargjaldþrot? [Hlátur í þingsal.]