138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

aðildarumsókn að ESB og staða Grikkja.

[12:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um fortíðina og hugsanlega það sem hefði gerst hefðu aðrar ákvarðanir verið teknar fyrir tíu árum. Ég fer fram á að þeir ráðherrar sem sitja fyrir svörum á Alþingi haldi sig alla vega meira í nútíðinni, svo ekki sé meira sagt.

Ég bar fram einfalda spurningu fyrir hæstv. utanríkisráðherra. Ég spurði að því hvort hann væri viss um að sú ákvörðun hafi verið rétt að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu, vegna þessarar hugsanlegu evrugulrótar sem var sveiflað framan í þing og þjóð í sumar þar sem staðan á Evrópusvæðinu er orðin eins og hún er nú. Grikkland riðar á barmi gjaldþrots, Spánn er í mikilli hættu. Ég spyr um nútíðina, var rangt að fara þessa leið? Ég fer ekki fram á annað en að hæstv. utanríkisráðherra svari því.