138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

strandveiðar.

[12:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrr í vikunni fóru fram umræður um strandveiðar sem hæstv. utanríkisráðherra blandaði sér í, sem er mjög ánægjulegt. Mig langar að vitna í andsvör hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, þar sem hæstv. ráðherra segir:

„Mig langar að spyrja hv. þingmann hversu mikið hann telji að það eigi að auka aflaheimildir og á hvaða grundvelli hann flytji þá skoðun. Mér er til efs að hann hafi vísindaleg rök fyrir því eins og þau eru fram sett af Hafrannsóknastofnun.“

Í öðru andsvari, með leyfi forseta, segir hæstv. utanríkisráðherra:

„Ég held að ekki sé hægt að lesa það út úr skýrslu Hafrós að hægt sé að taka 30.000 tonn og deila út til veiða án þess að skertir séu möguleikar til áframhaldandi vaxtar. Ég tel hins vegar alveg fullkomlega málefnalegt sjónarmið hjá hv. þingmanni að ef það mundi leiða til núllstöðu er það alveg þess virði að skoða það.“

Það kom líka fram í máli hæstv. utanríkisráðherra að hann hafði ekki gefið sér tíma til að lesa skýrslu Hafrannsóknastofnunar eins og hann hafði gert á mörgum undanförnum árum þar sem hann þekkti þar ekki til í þaula (Utanrrh.: Eins og í Biblíunni) — eins í Biblíunni, grípur hæstv. utanríkisráðherra hér fram í. En ég hef hins vegar gefið mér tíma til að skoða skýrslu Hafrannsóknastofnunar mjög gaumgæfilega og geri það á hverju ári. Það kemur fram í skýrslunni að ef þorskkvótinn yrði aukinn um 40 þús. tonn á þessu fiskveiðiári mundi það leiða til þess að stofnstærð þorsks, sem er núna 702 þús. tonn á árinu 2009 að mati Hafrannsóknastofnunar, mundi fara upp í 718 þús. tonn á næsta ári ef við færum í þessa aukningu og byggðum upp þorskstofninn. Því vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra í ljósi ummælanna sem hann lét falla í þessari umræðu: Hver er skoðun hæstv. utanríkisráðherra eftir að hafa fengið þessar upplýsingar staðfestar úr skýrslu (Forseti hringir.) Hafrannsóknastofnunar, hvort ekki væri skynsamlegt að auka við aflaheimildir?