138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

strandveiðar.

[12:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að við eigum að reyna að fara sem best eftir þeim upplýsingum sem fyrir liggja á vísindalegum grunni. Ég hef hins vegar margoft sagt það á umliðnum mánuðum að það sé málefnalegt að skoða hvort auka eigi aflaheimildir og gjarnan er það tekið sem dæmi að fjölskylda sem lendir í þrengingum tekur stundum af innstæðunum sem hún hefur safnað í bankann. Ég hef velt þeirri spurningu upp: Er það réttlætanlegt að við göngum á innstæðu okkar í auðlindabankanum, tökum út af henni og leyfum auknar aflaheimildir?

Ég hef svarað því þannig sjálfur að ég tel að það sé a.m.k. málefnalegt sjónarmið að skoða það mjög rækilega ef hægt er að sýna fram á að það leiði a.m.k. ekki til minnkunar á stofninum. Miðað við þær upplýsingar sem koma fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar er hugsanlega hægt að sjá við ákveðnar aðstæður, ef þær þróast með ákveðnum hætti miðað við ákveðnar spár, að jafnvel þó að aflaheimildir séu auknar minnki stofninn ekki. En ég vil hins vegar segja hv. þingmanni það að áður en ég tók til máls í þessari umræðu um daginn hringdi ég í forstjóra Hafrannsóknastofnunar og spurði hann hvort hægt væri að leggja út af upplýsingum stofnunarinnar með þeim hætti sem gert var af þeim þingmanni sem ég var að svara. Hann var ekki þeirrar skoðunar. Af því leiddi að síðar í þeirri umræðu sagði ég að það væri mitt mat að rétt væri að sjávarútvegsnefnd tæki þetta mál til umræðu, kallaði á vísindamennina og fengi úr þessu skorið í eitt skipti fyrir öll. Ég er þeirrar skoðunar að ef raunverulega er hægt að gera þetta án þess að hætta sé á að stofninn minnki eigi menn að skoða það mjög alvarlega við þessar aðstæður.