138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

strandveiðar.

[12:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að atvinnulífið úti á landi sé að stoppa og að menn hrúgist inn á atvinnuleysisskrá. Ég rifja það upp að hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er einn af talsmönnum Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, sagði fyrir tveimur dögum í svari til forsætisráðherra að staðan væri í nokkuð góðu lagi. Hann taldi upp þrenn rök til að rökstyðja það. Nú ætla ég ekki að skera úr um það hvor talsmanna Sjálfstæðisflokksins hefur rétt fyrir sér í þessu máli en ég er hins vegar sammála hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að menn eigi að skoða alla möguleika til að reyna að efla atvinnustigið. Ég er þeirrar skoðunar að það sé meira en einnar messu virði að farið sé yfir það hvort hægt sé að auka aflaheimildir. En áður en við tökum þá ákvörðun sem hugsanlega verður tekin verðum við að vita nákvæmlega afleiðingar hennar. Við verðum að vita hverjar eru forsendur slíkrar ákvörðunartöku. Ef hægt er að sýna fram á að hægt sé að gera þetta án þess að (Forseti hringir.) stofninn minnki er ég til í þann dans.