138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

bifreiðalán í erlendri mynt.

[12:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur lýst því yfir nokkuð margoft á undanförnum vikum að von sé á tillögum af hálfu ráðuneytisins til að leysa úr því vandamáli sem skapast hefur vegna bílalána sem tekin hafa verið hér í stórum stíl. Fjölmargar íslenskar fjölskyldur hafa tekið bílalán í erlendri mynt og greiða nú af þeim gríðarlega háar afborganir.

Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur lýst því yfir að hann hafi verið í samstarfi við fjármögnunarfyrirtækin en skili það samstarf ekki tilætluðum árangri sé von á lagasetningu af hálfu ráðherra til þess að hjálpa því fólki sem er að sligast undan þessum bílalánum.

Mig langar til að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, vegna þess að núna í gær eða fyrradag kom það fram í máli hans að von væri á tillögum af hans hálfu og þær yrðu jafnvel kynntar á vettvangi ríkisstjórnarinnar, gott ef það var ekki í morgun. Mig langar, vegna þess að þetta hvílir mjög þungt á mörgum heimilum, að spyrja hæstv. ráðherra að því hvað þessari vinnu líður, hvort von sé á einhverjum slíkum tillögum eða hvort ráðherrann hafi gefist upp eða ekki náð því samkomulagi sem hann taldi sig hafa náð gagnvart þessum fjármögnunarfyrirtækjum. Og jafnframt, hvernig hann ætlar sér að bregðast við gagnvart kröfuhöfum vegna þessara lána ef til lagasetningar kemur? Um leið og þörf er á að takast á við þennan vanda verður maður líka að gera sér grein fyrir því að það er ekki alveg augljóst hvernig leyst verður úr þessu máli þótt mér hafi þótt hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra oft tala ansi frjálslega um að þetta sé hægt að leysa með lagasetningu með einföldum hætti.

Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra lýsi því þá hér hvort von sé á slíkum aðgerðum og hvenær af þeim verður. Mig langar til þess að fá nokkuð skýrt svar við þessari fyrirspurn.