138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

bifreiðalán í erlendri mynt.

. mál
[12:34]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrir svarið. Ég get ekki betur heyrt á máli hans en að lagafrumvarpinu gætu hugsanlega fylgt gjaldþrot ákveðinna fjármögnunarfyrirtækja.

Mig langar að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra vegna frumvarpsins sem hér kemur væntanlega inn með afbrigðum í næstu viku eða einhvern tíma: Hefur hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra kannað sérstaklega hvort slíkt frumvarp geti bakað skaðabótaskyldu gagnvart íslenska ríkinu vegna þessa máls?

Enn fremur langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hægt sé með einhverju móti að meta markaðsvirði þeirra undirliggjandi eigna sem þarna eru á ferðinni. Það væri best ef hægt væri að ná niðurstöðu í þessu máli með einhvers konar samkomulagi frekar en að leggja til þvingaða lagasetningu. Um leið og ég vil taka það fram að það er brýnt að leysa úr þessum mikla vanda verðum við að gera okkur grein fyrir því að það geti falist í því veruleg hætta á háum skaðabótakröfum gegn íslenska ríkinu.