138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[12:50]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér fer fram en vil að sama skapi taka það fram að mér finnst mjög mikilvægt að hún fari fram á þeim nótum að menn séu ekki að spyrja þeirrar spurningar hvort einhver þurfi að deyja áður en gripið sé til einhverra ráðstafana í þessu máli vegna þess að auðvitað er það ekki svo. Það eru allir af vilja gerðir til þess að reyna að bæta úr þessari stöðu sem uppi er í þyrlumálum Landhelgisgæslunnar. Það er starfandi þverpólitískur hópur sem hefur það verkefni að horfa til starfsemi Landhelgisgæslunnar, Landhelgisgæsluáætlunar og annarrar stefnumótunar og gera tillögu um hvernig málum sé best háttað í nútíð og framtíð í ljósi óhjákvæmilegra aðhaldsaðgerða.

Ég vil segja á þeim stutta tíma sem ég hef hér að samkvæmt þeim gögnum og þeim tölum sem liggja fyrir þurfum við að hafa tvær þyrlur til reiðu til að geta sinnt 3/4 þeirra neyðartilvika sem koma upp á sjó. Til að hafa tvær þyrlur tilbúnar allan sólarhringinn allan ársins hring þarf fjórar þyrlur í rekstri og tvær vaktir. Þetta er því lágmarksviðbúnaður Íslendinga, fjórar þyrlur, og ég tel að allir eigi að geta fallist á það. Verkefni okkar er að tryggja fjármagn til að þannig megi hafa hlutina.

Ég vil líka segja, af því að við ræðum þetta undir yfirskriftinni „öryggismál sjómanna“, að ef þessar tölur eru skoðaðar var 75% þeirra sem bjargað var á árunum 1994–2008 með þyrlum bjargað á landi þannig að rekstur þessara þyrlna varðar ekki eingöngu sjómenn. Það skiptir máli fyrir Ísland sem ferðamannaland að við höfum þessa hluti í lagi. Verkefni okkar hér á þinginu og þess starfshóps sem dómsmálaráðherra hefur góðu heilli skipað er að finna leiðir til þess að ná þessu markmiði (Forseti hringir.) í þeirri þröngu stöðu sem við Íslendingar erum í núna.