138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[12:55]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í grein í Morgunblaðinu lýsir læknir þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar því ástandi sem varð að hans mati hjá Gæslunni vegna fjársveltis stofnunarinnar og leiddi m.a. til uppsagnar flugmanna. Læknirinn lýsir ástandinu sem neyðarástandi og segir að neyðarkall berist nú frá öllum starfsmönnum Gæslunnar þar sem fjársvelti sé orðið slíkt að sparnaðarloginn hafi læst sig í innviði og burðarstoðir stofnunarinnar.

Læknirinn spyr í greininni, með leyfi forseta:

„Eru það ráðamenn landsins, ríkisstjórn Íslands sem með minnkandi framlögum eru meðvitað að knýja Gæsluna á hnén?“

Hann lýkur grein sinni með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Það þarf að stórauka fjárframlög til Landhelgisgæslunnar svo hún fái sinnt því veigamikla hlutverki sem hún gegnir og megi sækja fram, vaxa og dafna sem sú stofnun sem getur tekið á mikilvægum verkefnum framtíðarinnar.“

Þessi grein er birt í Morgunblaðinu þann 17. desember árið 2002 og segir okkur ásamt fjölmörgum öðrum dæmum, sem ekki er tími til að rekja hér, að fjárhagsvandi Landhelgisgæslunnar á sér langa sögu. Við höfum ekki alltaf forgangsraðað í þágu Landhelgisgæslunnar í gegnum árin. Jafnvel þegar við þóttumst eiga nóg af peningum var Landhelgisgæslan svelt, eins og kemur fram í þessari grein og mörgum öðrum sem hægt er að vitna til.

Það breytir því hins vegar ekki að okkur ber skylda til að standa vörð um þá þjónustu sem við viljum helst að Gæslan sinni. Það þýðir að við verðum bæði að forgangsraða í starfsemi stofnunarinnar, hagræða í rekstri, skera niður, fresta framkvæmdum og leita allra leiða til að ná hagræði í rekstri. Við verðum líka að leita eftir samvinnu við aðrar þjóðir varðandi þyrlur, varðskip og önnur öryggistæki hér á þessu hafsvæði sem við, þyrlusveitin og skip á hafi úti, getum stuðst við.

Mikilvægast er að við sjáum til þess að þyrlusveitin sé vel studd og hún verði ævinlega tilbúin og reiðubúin til að sinna stærri verkefnum á hafi úti því að sjómenn eru öðrum landsmönnum fremur háðir þessari þyrlusveit.