138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[13:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir að taka hana hér upp. Það er auðvitað vilji allra hér að tryggja öryggi sjómanna eins og best gerist. Ég tek því undir með þeim þingmönnum sem hafa talað um að það sé ekki vilji nokkurs að banaslys þurfi að verða til að litið sé ofan í þessi mál. Við skulum reyna að nálgast umræðuna út frá lausnamiðuðum sjónarmiðum og forðast að falla í pólitískar skotgrafir því að það eru æðimörg mál sem vilji allra í þinginu er til að koma í sem bestan farveg. Það er hins vegar ekkert launungarmál að ástand ríkissjóðs er þannig núna að við þurfum að fara ofan í allan rekstur, hvort sem er hjá Landhelgisgæslunni eða öðrum.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi hér nokkur atriði, eins og til að mynda hvort hægt væri að samnýta flota Hafrós og Landhelgisgæslunnar, fá hingað herskip með þyrlum sem mér hugnast ekki. Ég bendi á þingsályktunartillögu sem Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður og fleiri hafa lagt fram um að skoða hvort hægt sé að koma hér á fót björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna. Það gæti hugsanlega verið einhvers konar stoð undir Landhelgisgæsluna og aðra skylda starfsemi. Svona mætti lengi telja.

Ég held að sú nefnd sem er að fara ofan í þessi mál og ég hef nýlega tekið sæti í verði að kafa ofan í þetta eftir bestu getu og horfa sem víðast á þetta. Þar hvet ég til að menn leitist við að vinna þetta í samstöðu. Þetta er verkefni okkar allra, okkar Íslendinga, þetta snýst ekki um hægri, þetta snýst ekki um vinstri — í svona málum erum við bara Íslendingar.