138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[13:08]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni, og dró ekki dul á það, er niðurstaða athugana sú að ásættanleg björgunargeta í þyrludeildinni miðist við fjórar þyrlur og sex og hálfa vakt. Ég greindi líka Alþingi frá því að vegna þess að fjárhag ríkisins er þannig háttað eru hér þrjár þyrlur í rekstri og fimm þyrluvaktir. Ég hef gert Alþingi grein fyrir því að það er ekki nægjanlegt. Við getum rætt um að hagræða. Við getum rætt um að samþætta stofnanir og nota peningana öðruvísi. Ég hef ekki skorast undan því og hef líka athugað hvort hægt sé að nota peningana öðruvísi í Landhelgisgæslunni en það ber allt að sama brunni, virðulegi forseti, það er ekki hægt að halda úti 100% björgunargetu á þyrlum nema aukið fjármagn komi til. Það er mjög einfalt mál.

Ég hef reynt að segja þetta á ýmsan hátt en við skulum horfast í augu við það að svona er þetta. Það getur vel verið að við getum einhvern veginn fengið það fjármagn til baka, með einhverjum öðruvísi rekstri hjá ríkinu. Við skulum hins vegar ekki tala um hlutina öðruvísi en þeir eru. Það sem við erum að reyna að gera og erum búin að gera í mjög langan tíma er að reyna að finna út úr því hvernig við getum haldið úti þyrlubjörgunarþjónustu sem er samkvæmt öllum skýrslum sú sem þarf að halda úti. Það er alveg hrikalegt að þurfa að halda úti þyrlubjörgunarþjónustu sem er minni en allar athuganir sýna að þurfi að vera. Það er ekki gott mál.