138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

reglugerð um strandveiðar.

[13:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til atkvæða um þetta svokallaða strandveiðifrumvarp. Veigamikill þáttur þessa frumvarps er víðtæk reglugerðarheimild sem hæstv. ráðherra er veitt í 1. gr. frumvarpsins sem mun ráða nánast öllu um það hvernig þessar veiðar fara fram á yfirstandandi fiskveiðiári. (Gripið fram í.) Við kölluðum eftir því við 1. umr., 2. umr., 3. umr. og í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að hæstv. ráðherra greindi okkur ítarlega frá því með hvaða hætti hann hygðist beita þessari reglugerðarheimild. Svörin sem við höfum fengið hafa verið afskaplega loðin. Hæstv. ráðherra treysti sér ekki einu til þess að vera við 3. umr. málsins til að greina frá þessu. Ég vek athygli á því að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þessar veiðar geti hafist á morgun. Það gefur augaleið að hæstv. ráðherra hlýtur að vera kominn langt með það að ljúka þessari reglugerðarsmíð, ella er þetta allt saman ómark. Það liggur fyrir að það mun taka hálfan mánuð frá því að reglugerðin verður (Forseti hringir.) kynnt þangað til veiðarnar geta hafist. Ég tel að hæstv. forseti ætti að beita (Forseti hringir.) sér fyrir því að hæstv. ráðherra greini okkur frá því hvernig (Forseti hringir.) hann hyggist beita þessari reglugerðarheimild sinni, ella erum við hér að greiða atkvæði (Forseti hringir.) um mál án þess að vita það sem máli skiptir.